Tugabrotin viðkvæm í meðförum
Bonn. Reuter.
VANGAVELTUR um að þýzka stjórnin sé að
hverfa frá strangri túlkun sinni á skilyrðum Maastricht-sáttmálans fyrir aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu (EMU) fengu byr undir báða vængi í gær vegna þess blæbrigðamuns, sem var á ummælum Klaus Kinkels utanríkisráðherra og Theo Waigels fjármálaráðherra um það hvort halda ætti fast við töluna 3,0% eða hvort fjárlagahalli sem hlutfall af landsframleiðslu mætti fara einhver tugabrot umfram hana.
Kinkel var í útvarpsviðtali í gærmorgun spurður hvort hinn sameiginlegi gjaldmiðill Evrópusambandsins, evróið, myndi ganga í gildi 1. janúar 1999, jafnvel þótt fjárlagahalli Þýzkalands í ár yrði 3,0, 3,1 eða 3,2% af landsframleiðslu. Kinkel svaraði: "Einmitt, þannig verður það."
Talsmaður ráðherrans hélt því síðar fram að svar hans hefði misskilizt og dreifði texta viðtalsins, þar sem Kinkel bætir því við að evróið muni verða innleitt "í samræmi við tímaáætlunina og stöðugleikaskilyrðin, þar á meðal þann fjárlagahalla, sem krafizt er."
Sagði ekki "3,1%" eða "3,2%"
Waigel fjármálaráðherra sá hins vegar ástæðu til þess að nota blaðamannafund, þar sem hann var að kynna útlit bakhliðar evró-myntar, sem slegin verður í Þýzkalandi, til að draga úr ummælum Kinkels. Waigel benti á það, fréttamönnum til nokkurrar kátínu, að Kinkel hefði ekki notað orðin "3,1" eða "3,2", þar sem þau hefðu verið innifalin í spurningu útvarpsmannsins.
"Ég geri ráð fyrir að ég muni áfram njóta stuðnings utanríkisráðherrans í því að halda mig við skilyrðin," sagði Waigel.
Í Maastricht-sáttmálanum stendur hvergi að fjárlagahalli aðildarríkja EMU megi ekki vera meiri en 3,0% af landsframleiðslu, heldur stendur þar "þrjú prósent". Ákvæði sáttmálans veita jafnframt nokkurt svigrúm til að túlka þessa tölu rúmt. Þýzk stjórnvöld hafa hins vegar til þessa kosið að halda sig við afar þrönga túlkun. Skýrsla, sem nokkrir forystumenn kristilegra demókrata hafa samið, hefur orðið til þess að menn telja stefnubreytingu liggja í loftinu, en í henni er meiri áherzla lögð á efnahagslega samleitni ríkja ESB en á tugabrotin, sem hafa reynzt svo viðkvæm í meðförum.
Reuter THEO Waigel, fjármálaráðherra Þýzkalands, kynnir útlit bakhliða evró-myntar, sem slegin verður í Þýzkalandi. Lengst til vinstri er eikarlauf, sem prýða á bakhlið eins, tveggja og þriggja senta peninga, þá mynd af Brandenborgarhliðinu, sem verður á 10, 20 og 50 senta peningum og þýzki örninn, sem verður aftan á eins og tveggja evróa peningum. Útlit framhliðar evrósins verður það sama í öllum aðildarríkjum en einstökum ríkjum er frjálst að ráða útliti bakhliðarinnar, að því tilskildu að tólf stjörnur umlyki myndina, sem þar er slegin. Þýzku þjóðartáknin eiga m.a. að bæta álit almennings á evróinu.