49 kennarar segja upp störfum
HÓPUR kennara við þrjá grunnskóla í Reykjanesbæ og Kópavogi lagði fram uppsagnarbréf sín í gær og hafa alls 49 kennarar með réttindi sagt upp störfum við þessa skóla.
Meirihluti kennara við Hjallaskóla í Kópavogi afhenti fræðslustjóra uppsagnarbréf sín eftir hádegi í gær. Alls sögðu 23 fastráðnir kennarar upp störfum en 38 kennarar starfa við skólann.
Farnir að leita sér að annarri vinnu
Jón Óttar Karlsson, trúnaðarmaður kennara, segir ástæðu uppsagnanna óánægju með launakjörin. Hann sagði að sumir kennaranna væru þegar farnir að leita sér að annarri vinnu og því léki mikill vafi á hversu margir þeirra sneru aftur til kennslustarfa þótt viðunandi samningar næðust í kjaraviðræðum kennarafélaganna.
Í gær sögðu átta kennarar við Holtaskóla í Reykjanesbæ upp störfum en tveir kennarar höfðu áður lagt inn uppsagnarbréf sín, skv. upplýsingum Sigurðar E. Þorkelssonar skólastjóra. Alls eru rúmlega 30 manns við kennslustörf í Holtaskóla. Þá sögðu 16 af 20 fastráðnum kennurum við Njarðvíkurskóla upp störfum í gær.