Í ÞRJÁTÍU stiga frosti inni í frysti Mjólkursamsölunnar við Bitruháls vinnur jöklafræðingurinn Þorsteinn Þorsteinsson að rannsóknum á borkjarna úr Langjökli. Meðal þess sem hann rannsakar er lagskipting og kristalgerð jökulsins og möguleikar á að þróa aðferð til að telja árlög í þíðjöklum. Þorsteinn fór í apríl sl.
Rannsóknir íslenskra vísindamanna á 70 metra borkjarna úr Langjökli
Vöxtur kristalla mun
hraðari hér en í GrænlandsjökliÍ ÞRJÁTÍU stiga frosti inni í frysti Mjólkursamsölunnar við Bitruháls vinnur jöklafræðingurinn Þorsteinn Þorsteinsson að rannsóknum á borkjarna úr Langjökli. Meðal þess sem hann rannsakar er lagskipting og kristalgerð jökulsins og möguleikar á að þróa aðferð til að telja árlög í þíðjöklum.
Þorsteinn fór í apríl sl. ásamt félögum úr Jöklarannsóknafélagi Íslands upp á jökul með kjarnabor, sem hann hafði fengið að láni hjá Alfred Wegener stofnuninni í Bremerhaven í Þýskalandi þar sem hann starfar. Hann er nú í launalausu leyfi þaðan fram að áramótum og nýtur styrks frá Vísindasjóði til Langjökulsrannsóknanna.
Þorsteinn og félagar slógust í för með leiðangri frá Raunvísindastofnun og Landsvirkjun og nutu aðstoðar hans við að flytja borinn og mannskapinn með snjóbíl. Þeir settu upp búðir á norðurbungu Langjökuls og hófust handa en hrepptu hið versta veður og ýmsar bilanir urðu til þess að tefja fyrir en þó tókst þeim á endanum að ná 70 metra kjarna úr jöklinum.
Öskulag á 60 metra dýpi líklega úr Heklugosinu 1970
Rannsóknir á Grænlandsjökli beinast einkum að veðurfarssögu en hér er m.a. verið að slægjast eftir eldgosasögunni, að sögn Þorsteins. Hann nefnir sem dæmi að fyrir um 25 árum hafi verið boraður ískjarni í Bárðarbungu. Þar hafi komið fram fjöldamörg öskulög, sem hafi verið til mikillar hjálpar við að rekja eldgosasögu Vatnajökuls, sem sé einmitt mjög mikilvægt núna. "Í Langjökulskjarnanum voru eitt til tvö öskulög, m.a. eitt á 60 metra dýpi sem sterkar líkur benda til að sé úr Heklugosinu 1970," segir hann.
Þá er Þorsteinn einnig að kanna möguleikana á því að telja árlög í jöklinum. Hann segir mjög auðvelt að telja árlög Grænlandsjökuls, það sé svipað og að telja árhringi í trjám, en enn hafi ekki verið þróaðar aðferðir til að telja árlög í kjörnum úr þíðjöklum.
Kristalgerð jökla, sem er sérsvið Þorsteins og hann hefur skrifað doktorsritgerð um, er að hans sögn nánast ókannað land í íslenskum jöklum. Hann hefur nú að undanförnu verið að útbúa þunnsneiðar úr kjarnanum og skoða þannig kristalgerð jökulsins. "Vöxtur kristalla er mun hraðari hér en í Grænlandsjökli. Ég get nefnt sem dæmi að á 50 metra dýpi í ís sem er 25 ára gamall hér á landi, er að finna jafnstóra kristalla og maður finnur fyrst niðri á 2.800 metra dýpi í Grænlandsjökli sem er 100 þúsund ára gamall," segir hann.
Þorsteinn segist að lokum vilja taka það sérstaklega fram hversu greiðviknir starfsmenn Mjólkursamsölunnar hafi verið og veitt honum margvíslega hjálp við að skapa vinnuaðstöðu fyrir rannsóknirnar í frystinum.
Morgunblaðið/Árni Sæberg ÞORSTEINN skoðar lagskiptingu ískjarna úr Langjökli.