Bodö vill fá Guðmund
NORSKA liðið Bodö/Glimt hefur sýnt
áhuga á að fá KR-inginn Guðmund Benediktsson til liðs við sig og hefur boðið honum að koma og skoða aðstæður hjá félaginu. "Ég reikna með að fara til Noregs strax eftir Íslandsmót og skoða hvað félagið hefur upp á að bjóða," sagði Guðmundur við Morgunblaðið.
Samningur Guðmundar við KR rennur út 1. október. Hann sagðist ekki vita hvað tæki við næsta sumar, en tók fram að ef hann yrði áfram hjá KR þyrfti "ýmislegt að breytast í herbúðum félagsins," eins og hann orðaði það.
Guðmundur var meiddur framan af keppnistímabilinu. Hann hefur aðeins einu sinni verið í byrjunarliðinu á Íslandsmótinu í sumar, gegn Grindavík 16. júlí.