FRANSKA lögreglan leitar bifreiðar, sem talið er að bifreið Díönu prinsessu hafi rekist á rétt áður en hún skall á steinstólpa í undirgöngum í París með þeim afleiðingum að prinsessan, unnusti hennar Dodi Fayed og bílstjóri þeirra, Henri Paul, biðu bana.
Lífvörður Dodi Fayed gengur í fyrsta sinn eftir slysið í París

Lögreglan leitar grunsamlegs lúxusbíls

París. Reuter.

FRANSKA lögreglan leitar bifreiðar, sem talið er að bifreið Díönu prinsessu hafi rekist á rétt áður en hún skall á steinstólpa í undirgöngum í París með þeim afleiðingum að prinsessan, unnusti hennar Dodi Fayed og bílstjóri þeirra, Henri Paul, biðu bana.

Að sögn sjónvarpsstöðvarinnar France 2 hafa nokkur vitni að slysinu sagt við yfirheyrslur að bifreið hafi horfið af vettvangi eftir slysið 31. ágúst sl. Eitt vitnanna kveðst, að sögn sjónvarpsins, hafa heyrt væl frá hjólbörðum og árekstrarhögg áður en Mercedes-bifreiðin, sem Díana var í, skall á steinstólpa. "Á því augnabliki sá ég tvær bifreiðar. Önnur þeirra, dökk lúxusbifreið af stærri gerðinni, jók hraðann mjög og um það leyti virtist ökumaður Mercedes-bifreiðarinnar missa vald á bílnum. Mér sýndist Mercedes-bíllinn rekast utan í lúxusbílinn," sagði stöðin að vitnið hefði tjáð lögreglunni.

Að sögn France 2 fann lögreglan vísbendingar á slysstað um að önnur bifreið hafi komið við sögu, m.a. fann hún brot úr afturljósum sem eru úr annarri bifreið en þeirri sem Díana var í. Þá voru rispur á annarri hlið Benzins, sem bentu til áreksturs, og hús af öðrum afturspegli hans fundust aftan við steinstólpann sem bendir til að hann hafi farið af við árekstur nokkru áður en bíllinn skall á stólpanum.

Lífvörðurinn, Trevor Rees Jones, sem komst einn lífs af úr slysinu, gekk um gólf í gær í fyrsta sinn. Gert er ráð fyrir að lögreglumenn byrji að rekja úr honum garnirnar í þessari viku og er framburðar hans beðið með mikilli eftirvæntingu.

Reuter FÓLK á gangi í undirgöngunum við Pont d'Alma þar sem Díana prinsessa beið bana fyrir tæpum þremur vikum. Göngin voru lokuð í fyrrinótt vegna hreinsunarstarfa. Fólkið lengst til vinstri stendur við stöpulinn sem bifreiðin, sem Díana var í, skall á.