ÞEKKTUR fíkniefnaneytandi á Ísafirði var handtekinn á Akureyrarflugvelli á föstudag fyrir viku með ætlað þýfi úr þremur innbrotum sem framin voru í tveimur fyrirtækjum á Ísafirði fyrir stuttu. Farið var fram á viku gæsluvarðhald yfir manninum en Héraðsdómur Norðurlands eystra stytti það um þrjá daga eða til hádegis á miðvikudag í síðustu viku.
Handtekinn á Akureyri með þýfi frá Ísafirði

Ísafirði. Morgunblaðið.

ÞEKKTUR fíkniefnaneytandi á Ísafirði var handtekinn á Akureyrarflugvelli á föstudag fyrir viku með ætlað þýfi úr þremur innbrotum sem framin voru í tveimur fyrirtækjum á Ísafirði fyrir stuttu.

Farið var fram á viku gæsluvarðhald yfir manninum en Héraðsdómur Norðurlands eystra stytti það um þrjá daga eða til hádegis á miðvikudag í síðustu viku. Þá var að nýju óskað eftir lengra gæsluvarðhaldi og tók héraðsdómari sér sólarhrings frest til ákvarðanatöku eða til kl. 11 í dag, fimmtudag.

"Ég get staðfest að viðkomandi maður er grunaður um að hafa brotist inn í tölvufyrirtækið Snerpu í tvígang sem og inn í fyrirtækið Rafverk í Bolungarvík. Þegar fréttist af ferðum mannsins til Akureyrar var lögreglan þar látin vita og handtók hún hinn grunaða á Akureyrarflugvelli. Í framhaldi af því var gerð húsleit hjá manninum á Ísafirði og fannst þar ætlað þýfi úr framangreindum innbrotum. Þar fundust einnig tæki og tól til fíkniefnaneyslu," sagði Hlynur Snorrason, rannsóknarlögreglumaður á Ísafirði, en rannsókn málsins er unnin samhliða hjá lögreglunni á Ísafirði og á Akureyri.

Umræddur maður hefur margsinnis komið við sögu lögreglunnar vegna innbrota og fíkniefnaneyslu.