FRÖNSK stjórnvöld neita að samþykkja sáttmála Evrópuráðsins um svæðisbundin tungumál og mál minnihlutaþjóða, á þeirri forsendu að í Frakklandi sé aðeins eitt opinbert tungumál. Sáttmálinn á meðal annars að tryggja að fólk, sem tilheyrir þjóðernisminnihlutahópum í ríkjum Evrópu, geti notað móðurmálið í samskiptum við stjórnvöld.
Frakkar samþykkja ekki tungumálasamning

Strassborg. Reuter.

FRÖNSK stjórnvöld neita að samþykkja sáttmála Evrópuráðsins um svæðisbundin tungumál og mál minnihlutaþjóða, á þeirri forsendu að í Frakklandi sé aðeins eitt opinbert tungumál.

Sáttmálinn á meðal annars að tryggja að fólk, sem tilheyrir þjóðernisminnihlutahópum í ríkjum Evrópu, geti notað móðurmálið í samskiptum við stjórnvöld.

"Við munum ekki undirrita sáttmálann um svæðisbundin tungumál og mál minnihlutaþjóða, sem leyfir einstaklingum að nota þessi tungumál í bréfaskiptum og samtölum við ríkisstjórnina," sagði Jacques Warin, fastafulltrúi Frakklands hjá Evrópuráðinu, við blaðamenn í gær.

Hann sagði að í stjórnarskrá Frakklands kæmi fram að eingöngu franska væri viðurkennd sem opinbert tungumál.

Mörg mál töluð í Frakklandi

Þótt aðeins sé eitt opinbert tungumál í Frakklandi eru töluð mörg tungumál í landinu. Bretónar tala eigið mál, Elsassbúar tala margir hverjir þýzku, Baskar tala eigin þjóðtungu og Korsíkubúar ítalska mállýzku. Þessir minnihlutahópar hafa lengi átt í stríði við miðstjórnina í París um rétt til að nota móðurmál sitt opinberlega og læra það í skólum.

Ýmis önnur Evrópuríki hafa farið þá leið að veita tungum minnihlutahópa stöðu opinbers tungumáls í hluta ríkisins eða um allt land, ásamt tungumáli meirihlutans. Þetta á t.d. við um sænsku í Finnlandi, basknesku, katalónsku og galisísku á Spáni og velsku í Bretlandi.