ERIK Newman, 17 ára nemi í Verkmenntaskólanum á Akureyri, varð fyrir heldur óskemmtilegri reynslu síðasta sunnudag. Hann var ásamt bróður sínum að viðra hundinn sinn, Toby, í brekku ofan við verslunina Brynju í Innbænum þegar tveir hundar koma aðvífandi, hundur og tík. Þeir voru ólarlausir.
Hundur réðst að sautján ára pilti og beit hann Varð dauðhræddur

ERIK Newman, 17 ára nemi í Verkmenntaskólanum á Akureyri, varð fyrir heldur óskemmtilegri reynslu síðasta sunnudag. Hann var ásamt bróður sínum að viðra hundinn sinn, Toby, í brekku ofan við verslunina Brynju í Innbænum þegar tveir hundar koma aðvífandi, hundur og tík. Þeir voru ólarlausir. Hundurinn, sem að sögn Eriks er labradorblendingur, slóst í smá stund við Toby, en þegar hann hafði bitið hana í lærið og dregið hana til leist Erik ekki á blikuna.

"Ég reyndi að stía þeim í sundur, en þá skipti engum togum, hundurinn réðist að mér og beit mig, fyrst í þumalfingurinn og fór bitið gegnum nöglina og svo beit hann mig í handlegginn," sagði Erik. "Hann hristi mig til og ég varð dauðhræddur."

Það var Toby sem kom Erik til bjargar, hún flaug á hundinn og beit hann í eyrað og hætti hann þá árás sinni á piltinn.

Toby gat ekki stigið í löppina í tvo daga eftir bit hundsins og Erik gerir ráð fyrir að sín sár grói á tveimur til þremur vikum. Erik fór strax á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri þar sem hann fékk m.a. viðeigandi sprautur. Á vinstri handlegg hans eru djúp för eftir vígtennur hundsins, sem ekki var hægt að sauma.

Erik þekkti ekki hundinn sem réðist á hann og hefur ekki séð hann aftur, en hans hefur verið leitað í hverfinu.

Morgunblaðið/Kristján ERIK Newman með hundinn sinn, Toby, en pilturinn og hundur hans urðu fyrir árás labradorblendings síðasta sunnudag.