Fyrst ruglaður svo glaður
"FYRST varð ég hálfruglaður og svo gífurlega glaður. Ég get ekki lýst því á annan hátt hvernig var að fá fréttirnar," sagði Erlendur Gunnarsson frá Vestmannaeyjunum um hvernig honum varð innanbrjósts við að fá fréttir af því að hann hefði unnið 6,8 milljónir í lottói á laugardagskvöldið.
Erlendur hefur unnið á útsýnisbátnum Víkingi í sumar. Hann segir að hann og félagi hans hafi ávallt keypt lottómiða í sama söluturninum í sumar. "Að kaupa í Goðahrauninu var hálfgert framhjáhlaup og ég lét ekki athuga miðann fyrr en ég fór með hann og nokkra aðra þangað í hádeginu á þriðjudag," sagði Erlendur.
Von á margföldum lottóvinningi
Erlendur sagði að konan hans hefði ekki fremur en aðrir í fjölskyldunni trúað því í fyrstu að hann hefði dottið svona rækilega í lukkupottinn. Hann sagði að vissulega hefði fjölskyldan þörf fyrir peningana. "Peningarnir koma sér mjög vel enda stöndum við í húsakaupum, keyptum á árinu," sagði hann og fram kom að von væri á fjölgun í fjölskyldunni. Nú væru börnin tvö, 3ja og 5 ára, og von væri á því þriðja á allra næstu dögum. Barn sagði Erlendur vera margfaldan lottóvinning.
Erlendur sagðist ekki hafa velt því fyrir sér hvort hann myndi fagna vinningnum sérstaklega enda væri í nægu að snúast hjá honum.