BILL Clinton, Bandaríkjaforseti, hvatti Bandaríkjaþing til þess í gær að setja lög sem fælu matvæla- og lyfjaeftirlitinu að fylgjast með vörum sem innihalda nikótín. Þá lagði hann til að verð á tóbaki verði hækkað takist tóbaksframleiðendum ekki að ná fyrirfram settum markmiðum og draga úr reykingum ungmenna. Ræða forsetans þykir benda til þess að hann líti á nýgert samkomulag yfirvalda og tóbaksframleiðenda sem upphafsskref á lengri leið, sem ekki sjái enn fyrir endann á.
Fjórar konur í framboði
FIANNA FAIL, stjórnarflokkur Írlands, tilnefndi í gær Mary McAleese lagaprófessor sem forsetaefni sitt. Val hennar kom mjög á óvart en búist hafði verið við að Albert Reynolds, fyrrverandi forsætisráðherra, yrði fyrir valinu. Auk þess sem þetta er mikið áfall fyrir Reynolds, sem hafði sóst eftir útnefningu, þýðir það að allir fjórir frambjóðendurnir verða konur.
Moi fram í fimmta sinn
FLOKKUR Daniels arap Mois, forseta Kenýa, samþykkti einróma á þriðjudag að hann yrði forsetaefni flokksins í fimmta og síðasta sinn í kosningum síðar á árinu. Moi, sem er tæplega hálfáttræður og hefur verið við völd í 19 ár, sagði eftir útnefninguna, að hann myndi halda áfram að vinna fyrir landsmenn, jafnvel þá, sem ekki kysu hann. Moi hefur verið sakaður um einræði og harðstjórn og fimm leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa hótað að valda glundroða í landinu til að knýja á um afsögn hans.
Ellefu ára erfingi
ÍTALSKI fatahönnuðurinn Gianni Versace, sem var myrtur fyrir utan heimili sitt 15. júlí síðastliðinn, arfleiddi ellefu ára systurdóttur sína að 45% hlut sínum í fyrirtækinu sem bar nafn hans. Átta ára bróðir hennar hlaut hins vegar listaverkasafn hans sem m.a. inniheldur verk eftir Picasso og Leger. Þá ánafnaði Versace sambýlismanni sínum, Antonio D'Amico, ríkulegan framfærslueyri auk þess sem hann fær að dvelja í húseignum hönnuðarins víða um heim. Óstaðfestar fréttir herma að bræðrabörn hönnuðarins hafi hins vegar ekki verið nefnd í erfðaskrá hans.
Moi