Mikilvægar breyt-
ingar á næstu árum
DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra
segist sjá fyrir sér mikilvægar breytingar á íslenskri efnahags- og þjóðfélagsgerð á næstu árum. Markaðsbúskapur verði efldur, menntakerfið bætt og opinber búskapur endurskipulagður. Staða Íslands í alþjóðlegu umhverfi nýrrar aldar muni að verulegu leyti ráðast af því hvernig til takist í þessum efnum. Þetta kom m.a fram í ræðu forsætisráðherra í tilefni af 80 ára afmæli Verslunarráðs Íslands í gær.
Davíð sagði að það færi ekki á milli mála að staða Íslands væri góð í samanburði við aðrar þjóðir sem hefðu náð langt í efnahagsmálum. Þó værum við skemmra á veg komin í að virkja markaðsöflin en aðrar þjóðir í fremstu röð. Fyrir vikið væru framleiðni og afköst minni en eðlilegt væri að gera kröfu um. Nú væri unnið að slíkum umbótum í fjármálastarfsemi og jafnframt væri verið að taka fyrstu skrefin á fleiri sviðum svo sem í orkumálum og fjarskiptum.
Menntakerfið þarf að bæta
Þá væri ljóst að bæta þyrfti menntakerfið en menntunin væri öflugasta tækið til að nýta sér þá möguleika sem byðust í breyttum heimi. Einnig væri margt í búskap hins opinbera og velferðarkerfinu sem þyrfti að betrumbæta. Til að mynda væri samneyslan hátt hlutfall af landsframleiðslu samanborið við önnur lönd.
"Í þessum efnum þurfa sveitarfélögin að taka sér tak og stöðva eða draga úr sjálfvirkni félagslegra útgjalda. Núverandi skipan þessara mála er um margt úrelt og óhagkvæm enda var grunnur lagður að henni við allt aðrar aðstæður en menn sjá fyrir á næstu öld," sagði Davíð.
Markaðsbúskapur efldur/30