Tólf manns farast
í þyrluslysi
TÓLF manns fórust þegar þyrla
flaug á fjall í miðhluta Bosníu í gær. Þyrlan var á leið með háttsetta embættismenn á vegum Sameinuðu þjóðanna og fleiri alþjóðasamtaka til fundar við yfirvöld í bænum Bugojno.
Klaus Kinkel, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði að fimm Þjóðverjar, fimm Bandaríkjamenn, Breti og Pólverji hefðu farist. Áhöfn þyrlunnar, fjórir Úkraínumenn, hefði komist lífs af.
Vestrænir embættismenn sögðu að háttsettur þýskur stjórnarerindreki, Gerd Wagner, hefði verið á meðal þeirra sem fórust. Wagner hefur starfað sem aðstoðarmaður Carlos Westendorps, fulltrúa Sameinuðu þjóðanna í Bosníu, og gegndi veigamiklu hlutverki í friðarumleitununum í landinu.
Kinkel sagði að þyrlan hefði lent í mikilli þoku og flogið á fjallið um leið og hún hefði komist út úr þokubakkanum.
Á myndinni er verið að flytja einn Úkraínumannanna á sjúkrahús.