lífeyrisfrumvarp
Ekki farið
að reyna
á helstu
deilumál
MIKIL vinna fer fram þessa dagana
í nefnd aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda, sem falið var að yfirfara og reyna að ná sáttum um drög að frumvarpi fjármálaráðherra um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Enn sem komið er er lítið farið að reyna á helstu ágreiningsatriðin innan nefndarinnar.
Nefndinni var ætlað að skila niðurstöðum sínum fyrir 15. september en nú er orðið ljóst að nefndin mun væntanlega ekki ljúka störfum fyrr en í fyrsta lagi um eða upp úr næstu mánaðamótum.
Nefndin hefur haldið fundi tvisvar í viku að jafnaði að undanförnu og eru boðaðir þrír fundir á næstu tveimur vikum. "Þetta er að færast á lokastig. Það er búið að fara mjög rækilega í gegnum frumvarpið og við erum að snurfusa eitt og annað. Hins vegar er ekki búið að láta á það reyna hvort það næst samstaða um þau atriði sem mest var deilt um í vor," segir Vilhjálmur Egilsson, alþingismaður og formaður nefndarinnar.
Töluverðar breytingar gerðar á frumvarpinu
Vilhjálmur segir aðspurður að gera megi ráð fyrir að gerðar verði töluverðar breytingar á frumvarpinu, en hann vildi ekki tilgreina í hverju þær væru fólgnar.
"Ég ætla engu að spá um niðurstöður varðandi helstu ágreiningsefnin, sem urðu til þess að nefndinni var skipuð," segir Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ. Hann segir að lítið sé enn farið að reyna á hvort samkomulag gæti náðst um ágreiningsmálin. "Það er búið að fara yfir frumvarpið allt, án þess að gengið hafi verið frá einu eða neinu með formlegum hætti. Menn hafa skilið helstu ágreiningsefnin eftir. Við erum að nálgast það óðfluga," segir Grétar.