TVEIR ráðherrar Framsóknarflokksins, Finnur Ingólfsson og Halldór Ásgrímsson, munu hafa beitt sér gegn ráðningu Elínar Hirst í starf fréttastjóra Sjónvarpsins samkvæmt heimildum blaðsins. Einnig munu framsóknarmenn hafa boðið málamiðlun um Árna Þórð Jónsson og raunar gefið til kynna að þeir gætu fellt sig við
Átök stjórnarflokkanna um ráðningu fréttastjóra Sjónvarps

Framsókn bauð málamiðlun um flesta umsækjendur nema Elínu

Samstarf ríkisstjórnarflokkanna um málefni Ríkisútvarpsins í útvarpsráði virðist í uppnámi vegna ráðningar fréttastjóra Sjónvarpsins. Framsóknarflokkurinn hefur lagst eindregið gegn áformum sjálfstæðismanna um að ráða Elínu Hirst í starfið. Pétur Gunnarsson kynnti sér málið.

TVEIR ráðherrar Framsókn arflokksins, Finnur Ingólfsson og Halldór Ásgrímsson, munu hafa beitt sér gegn ráðningu Elínar Hirst í starf fréttastjóra Sjónvarpsins samkvæmt heimildum blaðsins. Einnig munu framsóknarmenn hafa boðið málamiðlun um Árna Þórð Jónsson og raunar gefið til kynna að þeir gætu fellt sig við flestalla úr hópi umsækjendanna sjö aðra en Elínu. Nú telji þeir hins vegar fullreynt að sjálfstæðismönnum verði ekki þokað.

Gissur Pétursson, fulltrúi Framsóknar í ráðinu, staðfesti í samtali við Morgunblaðið að hann hefði ráðfært sig við þingflokk framsóknar um málefni Ríkisútvarpsins og rætt ráðningu fréttastjórans í víðu samhengi við formann þingflokksins.

Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, formaður Útvarpsráðs fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, vildi ekki ræða um ráðningu fréttastjóra til Sjónvarpsins þegar til hans var leitað í gær. Þórunn Gestsdóttir, annar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kvaðst ekki hafa orðið vör við pólitísk átök um ráðningu fréttastjóra.

"Um þetta mál vil ég ekki segja annað en það að mér finnst að það séu margir vel hæfir einstaklingar meðal umsækjenda," sagði Björn Bjarnason menntamálaráðherra. "Lögum samkvæmt ber Útvarpsráði að segja álit sitt á þeim og undan því verður ekki vikist. Síðan er það útvarpsstjóra að veita starfið."

Um það hvort samráðherrar hans í ríkisstjórn hefðu haft samband við hann út af þessu máli sagði Björn svo ekki vera. "Þetta mál er náttúrulega til umræðu manna á meðal en það hefur ekki verið sérstakt samband haft við mig út af því af ráðherrum Framsóknarflokksins." Um hvort hann hefði orðið var við andstöðu framsóknarmanna við ráðningu Elínar Hirst kvaðst hann hafa séð það í blöðum að menn væru að taka afstöðu til einstakra umsækjenda.

Gissur Pétursson, sem er varaformaður Útvarpsráðs, dró ekki dul á í samtali við Morgunblaðið að ráðning fréttastjóra hefði leitt til átaka milli fulltrúa stjórnarflokkanna. Aðspurður um afskipti forsvarsmanna og ráðherra framsóknar af málinu sagðist Gissur vera valinn til setu í ráðinu af þingflokki Framsóknarflokksins sem fulltrúi flokksins í Útvarpsráði og kjörinn af Alþingi. "Ég hef auðvitað þingflokkinn sem mitt bakland og ber undir hann margvísleg málefni sem lúta að Ríkisútvarpinu og Útvarpsráð er að fást við; skipulagsmál og þar með talið ýmsar mannaráðningar og fleira."

Um það hvort hann hefði rætt þetta mál við ráðherra flokksins sagðist Gissur ekki hafa verið í beinu sambandi við ráðherra flokksins vegna þessa heldur hafi hann rætt málið við Valgerði Sverrisdóttur, formann þingflokksins, í víðu samhengi. Hann var spurður hvort segja mætti að hann ynni þá samkvæmt flokkslínu í Útvarpsráði. Gissur sagði: "Þegar ég starfa í Útvarpsráði starfa ég þar sem fulltrúi Framsóknarflokksins og það er svo með alla þá sem þarna eru inni og það er yfirskin að segjast vera eitthvað annað að mínu mati. Þetta er pólitísk stjórn og ríkisstofnanir heyra með einum eða öðrum hætti undir hið pólitíska vald."

Varðandi ástæður andstöðu sinnar og framsóknarmanna gegn ráðningu Elínar Hirst, fyrrverandi fréttastjóra Stöðar 2, sagði Gissur Pétursson málið ekki snúast um andstöðu við Elínu heldur væri hann hlynntur því að menn störfuðu í samræmi við það skipulag sem í gildi væri á fréttastofu Sjónvarps.

"Það er ákveðið skipulag í gildi á fréttastofunni staðfest af útvarpsstjóra um að varafréttastjóri innlendra frétta sé staðgengill fréttastjóra. Í ljósi þess að þetta er tímabundin ráðning, aðeins til 16 mánaða, hefði ég talið þetta rökrétt fyrirkomulag. Svo vill til að varafréttastjóri innlendra frétta er Helgi H. Jónsson. Það er ekki meginmálið heldur hitt að það er ákveðið kerfi í gangi sem er búið að staðfesta. Mín afstaða er sú að það skipti máli fyrir starfsfólkið sem leggur sína starfsævi í það að leggja þessari stofnun gagn þurfi að vera framgangskerfi sem virkar þannig að fólk geti unnið sig upp."

Gissur sagði að fjölmiðlun á Íslandi hefði gjörbreyst síðustu ár og staða fréttastjóra væri mjög mikilvæg. "Það er undir öllum kringumstæðum nauðsynlegt að það sé staðið að þeirri ráðningu á þann hátt að í þann stól setjist faglega hæfur stjórnandi og maður sem þokkaleg sátt er um."

Gissur Pétursson og Guðrún Helgadóttir, útvarpsráðsfulltrúi Alþýðubandalags, settu bæði út á það hvernig staðið var að aðdraganda fréttastjóraráðningarinnar. "Meðan Útvarpsráð var í sumarleyfi var núverandi fréttastjóra gefið leyfi í 16 mánuði til annarra starfa innan stofnunarinnar," sagði Guðrún Helgadóttir. "Í stað þess að þá tæki við varafréttastjóri var staðan auglýst. Það er enginn vafi á að það hefur hindrað ansi marga í að sækja um þessa stöðu að hún er auglýst til takmarkaðs tíma. Umsóknir urðu því aðeins sjö en það er allt ákaflega hæft fólk og valið því mjög erfitt. Mér finnst staða fréttastjóra Ríkisútvarps og sjónvarps afskaplega þýðingarmikil. Það ber að vanda það val vel. Þess vegna hefur staðið í mér að átta mig á því hver kosturinn væri bestur. Við fengum afar takmarkaðar upplýsingar um umsækjendur og hversu líklegir þeir væru til að stýra fréttastofunni."

Tek ekki þátt í pólitískum hráskinnaleik

Guðrún sagði að umsækjendur hefðu ekki einu sinni verið kallaðir í viðtal hjá stjórnendum stofnunarinnar og því kvaðst hún hafa óskað eftir öðrum fresti á afgreiðslu málsins til að umsækjendur gerðu Útvarpsráðinu grein fyrir hugmyndum sínum um stjórn fréttastofu, "til þess að ég að minnsta kosti gæti áttað mig á því hver mér fyndist líklegastur til að gegna þessu starfi. Ég dreg ekki dul á að ég tel ýmissa breytinga þörf á fréttastofu og ég vil gjarnan heyra hvaða hugmyndir menn hafa um það og eftir því mun ég greiða atkvæði. Ég tek ekki þátt í neinum pólitískum hráskinnaleik varðandi fréttastjórastarfið." Guðrún sagði t.d. að tengsl Elínar Hirst við Sjálfstæðisflokkinn, ef einhver væru, skiptu sig ekki nokkru máli. Hún vildi ekki svara því að hverjum hún hallaðist fyrr en greinargerðirnar lægju fyrir.

Guðrún sagði ljóst að málið hefði verið erfitt deilumál innan stjórnarflokkanna og þar sem ekki hefði tekist að leysa það innan ráðsins hefði þurft að leysa það annars staðar og hún teldi það segja sig sjálft að ráðherrar hefðu komið að því máli. "Það þarf ekki 16 ára þingreynslu til að sjá að það segir sig sjálft," sagði hún.