FULLTRÚAR þriggja félaga atvinnubifreiðastjóra áttu fund með fjármálaráðherra í gær, þar sem rætt var um möguleika á að breyta ákvæðum laga um þungaskatt, en Samkeppnisráð hefur úrskurðað að ákvæðin hamli samkeppni. Um er að ræða félög leigubifreiðastjóra, sendibifreiðastjóra og vörubifreiðastjóra.
ÐAtvinnubílstjórar ræddu

þungaskatt við ráðherra

Lagaákvæði hamla samkeppni

FULLTRÚAR þriggja félaga atvinnubifreiðastjóra áttu fund með fjármálaráðherra í gær, þar sem rætt var um möguleika á að breyta ákvæðum laga um þungaskatt, en Samkeppnisráð hefur úrskurðað að ákvæðin hamli samkeppni. Um er að ræða félög leigubifreiðastjóra, sendibifreiðastjóra og vörubifreiðastjóra.

Unnur Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Landssambands vörubifreiðastjóra, sagði að þau væru ánægð með fundinn með fjármálaráðherra. Farið hefði verið yfir þennan úrskurð Samkeppnisráðs og sjónarmiðin skýrð. Lagabreytingar þyrfti til að breyta þessu ástandi og þyrfti málið því að koma til kasta Alþingis. Þau myndu verða í sambandi við þá starfsmenn í ráðuneytinu sem hefðu með þessi mál að gera og það yrði einnig kynnt þingmönnum.

Unnur sagði að núgildandi lög fælu meðal annars í sér afslátt af þungaskatti ef ekið væri umfram 45 þúsund kílómetra á ári. Þeim mun meira sem væri ekið þeim mun meiri yrði afslátturinn og væri það í hróplegum ósamræmi við tilgang laganna, þar sem þau væru fyrst og fremst hugsuð sem fjáröflun til vegagerðar í samræmi við notkun vega.

Í þessu fælist mismunun gagnvart þeim sem minna ækju og væri munurinn hundruð þúsunda króna enda væri þungaskatturinn stór hluti af rekstrarkostnaði vörubifreiða. Þannig væri borgað í þungaskatt af tíu hjóla bíl sem æki 45 þúsund kílómetra á ári tæplega 1.220 þúsund krónur á ári. Gjald þess sem æki umfram þetta lækkaði hins vegar um 50%, þannig að í stað þess að borga um 27 krónur á kílómetra væru greiddar 13 krónur. Sem dæmi fengi sá sem æki 100 þúsund kílómetra á ári 750 þúsund krónur í afslátt.