EVRÓPSK hlutabréf hækkuðu yfirleitt í verði í gær vegna upplýsinga um bandarísk húsnæðismál, sem benda ekki til verðbólgu. Verð á gulli hafði ekki verið lægra síðan 7. ágúst og nálgaðist lægsta verð ársins, sem er 317,75 dollara únsan, vegna tals um að seðlabankar muni selja gull.
»Flest evrópsk bréf hækka í verði
EVRÓPSK hlutabréf hækkuðu yfirleitt í verði í gær vegna upplýsinga um bandarísk húsnæðismál, sem benda ekki til verðbólgu. Verð á gulli hafði ekki verið lægra síðan 7. ágúst og nálgaðist lægsta verð ársins, sem er 317,75 dollara únsan, vegna tals um að seðlabankar muni selja gull. Á gjaldeyrismörkuðum lækkaði dollar gegn marki og jeni vegna þess að óttazt er að þýzkir vextir verði hækkaðir bráðlega og að sífellt hagstæðari viðskiptajöfnuður Japana geti leitt til ýfinga milli þeirra og Bandaríkjamanna. Í London komst FTSE-100 vísitalan aftur yfir 5000 punkta síðdegis eftir lækkun fyrr um daginn vegna talna um atvinnuleysi og smásölu í Bretlandi. Atvinnulausum í ágúst fækkaði um 48.600 í 1,5 milljónir og hefur atvinnuleysi ekki verið minna í Bretlandi síðan 1980, en smásala jókst um 0,4 og eykur það vangaveltur um aðra brezka vaxtahækkun á þessu ári. Brezk og önnur evrópsk hlutabréf hækkuðu í verði þegar tölur sýndu að nýjum húsum, sem smíði hófst á í Bandaríkjunum, fækkaði um 4,8%, eða í 1,36 milljónir á ársgrundvelli, sem er lakasta útkoma síðan sambærileg tala var 1,35 milljónir í desember. Þar með er talið að bandaríski seðlabankinn muni halda vöxtum stöðugum á fundi sínum í lok mánaðarins. Þýzka DAX vísitalan hækkaði í yfir 4.000 punkta, en lækkaði fyrir lokun, meðal annars vegna þess að Dow hækkaði ekki eftir góða byrjun í New York.