Þrjú börn skorin upp
vegna axlarklemmu
TAUGASKURÐLÆKNARNIR
Thomas Carlstedt og Rolf Birch frá Royal National Orthopædic sjúkrahúsinu í London gera ásamt Rafni Ragnarssyni yfirlækni á lýtalækningadeild Landspítalans aðgerðir á þremur íslenskum börnum, vegna svokallaðrar axlarklemmu, á Landspítalanum á föstudag. Carlstedt hefur í tvígang gert aðgerðir á íslenskum börnum vegna axlarklemmu hér á landi.
Sigríður Logadóttir í stjórn foreldrafélags axlarklemmubarna segir að Carlstedt hafi fyrst komið hingað til að skera upp son hennar í febrúar árið 1994. "Eftir nokkurt stríð samþykkti Tryggingastofnun að greiða hluta kostnaðarins vegna heimsóknarinnar. Ekki var hins vegar viðlit að Tryggingastofnun greiddi nema um 200.000 kr. af kostnaðinum við aðra heimsókn Carlstedt í fyrra. Á endanum gerði því eldri borgari aðgerðirnar mögulegar með því að safna fyrir mismuninum," sagði hún.
Hún segist hafa frétt af því að Tryggingastofnun og Landspítali hafi gert heiðursmannasamkomulag um að deila með sér kostnaðinum núna. "Tryggingastofnun hefur, með réttu, lagt áherslu á að Ríkisspítalar eigi að bera kostnað af aðgerðum inni á spítalanum. Á móti ber Tryggingastofnun að greiða kostnað vegna ferða sjúklinga til annarra landa ef ekki er hægt að veita viðeigandi þjónustu hér. Nú hafa stofnanirnar ákveðið að taka höndum saman og deila með sér kostnaðinum vegna heimsóknar tvímenninganna hingað," sagði hún.
Tvenns konar aðgerðir
Sigríður sagði að axlarklemman myndaðist eftir að höfuð barnanna kæmi í ljós í fæðingu. "Þegar togað er í barnið slitna eða togna taugar fram í hendina. Oftast lagast skaðinn af sjálfu sér en 10 til 15% barnanna verða fyrir varanlegum skaða," segir hún.
Hún segir að erlendu sérfræðingarnir geri tvenns konar aðgerðir til að hjálpa börnunum. "Strákurinn minn fór í svokallaða taugaaðgerð. Aðgerðin fólst í því að taug var tekin aftan úr kálfanum og splæst við taugina þar sem hún slitnaði uppi við öxl. Nokkurn tíma tekur fyrir taugina að vaxa og barnið þarf að læra sérstaklega að nota höndina. Hreyfingin kemur smám saman og of mikið er að búast við 100% árangri, t.d. vantar heilmikið upp á axlarhreyfingarnar hjá stráknum mínum," segir hún.
Erlendu sérfræðingarnir skoða 12 til 14 börn með varanlegan skaða vegna axlarklemmu í dag. Á morgun gera tvímenningarnir í samvinnu við Rafn svo aðgerðirnar á börnunum þremur og halda fyrirlestur um aðgerðir af því tagi í gamla hjúkrunarskólanum á Landspítalalóðinni kl. 13.