Vill strika
út austur
þýsk met
ÞÝSKI vísindamaðurinn Werner
Franke segist hafa sannanir fyrir því að austur-þýsk yfirvöld hafi styrkt framleiðslu og notkun á ólöglegum lyfjum á meðal íþróttamanna þjóðarinnar áður en Berlínarmúrinn féll árið 1989. Þess vegna beri að strika öll heimsmet, sem Austur- Þjóðverjar settu og enn standa, út af skrám t.d. hjá Alþjóða frjálsíþróttasambandinu. Þessi orð lét hann falla á ráðstefnu hjá breskum íþróttaforkólfum í vikunni.
Franke, sem er sameindalíffræðingur, segist hafa undir höndum skjöl sem sanna að austur-þýska öryggislögreglan Stasi hafi haldið skrá yfir þau lyf sem íþróttamönnum voru gefin. "Hingað til hefur verið sagt að ekki væri hægt að taka metin út af skrá vegna þess að sannanir fyrir lyfjanotkuninni væru ekki til staðar, nú eru þær komnar fram," sagði Franke.
"Stasi hafði umsjón með notkun lyfjanna. Þau voru gefin íþróttamönnum frá 14 ára aldri og fram til þess tíma að þeir voru að komast í fremstu röð í sínum greinum, þá hafi lyfjagjöf verið minnkuð.
Máli sínu til stuðnings benti hann á hversu mikið árangri hefði hrakað í mörgum greinum eftir að Berlínarmúrinn féll og þýsku ríkin sameinuðust. Þá hafa nokkrir austur- þýskir íþróttamenn lögsótt þýsk yfirvöld með þeim rökum að þeim hafi verið gefin ýmis lyf gegn vilja þeirra í því aungamiði að ná betri árangri.
Talsmaður Alþjóða frjálsíþróttasambandsins lét hafa það eftir sér í gær í framhaldi af ummælum Franke að sér þætti afskaplega ólíklegt að heimsmet A-Þjóðverja yrðu strikuð út þótt einhverjar sannanir hefðu komið fram um lyfjanoktun. "Pappírar segja okkur ekkert, við verðum að standa íþróttamenn að verki til þess að hægt sé að ógilda árangur þeirra."