"JÚ, ég er á förum úr stjórninni, verð í starfi fram á föstudag, en þá tekur Mikael Petersen, starfandi formaður Siumut-flokksins, við því ráðherrastarfi sem ég hef gegnt," sagði Benedikte Thorsteinsson, atvinnu- og félagsmálaráðherra í grænlensku heimastjórninni í samtali við Morgunblaðið í gær.
Benedikte Thorsteinsson hverfur úr grænlensku heimastjórninni

Víkur fyrir starf-

andi formanni

"JÚ, ég er á förum úr stjórninni, verð í starfi fram á föstudag, en þá tekur Mikael Petersen, starfandi formaður Siumut-flokksins, við því ráðherrastarfi sem ég hef gegnt," sagði Benedikte Thorsteinsson, atvinnu- og félagsmálaráðherra í grænlensku heimastjórninni í samtali við Morgunblaðið í gær.

Benedikte, sem er gift íslenskum manni, Guðmundi Þorsteinssyni, tók við ráðherrastarfi í Grænlandi eftir landsþingskosningarnar í apríl 1995. "Petersen tók við starfi formanns er Lars Emil Johansen sagði af sér flokksformennsku um síðustu mánaðamót og ákvað að hverfa til annarra starfa. Hann krafðist þess að fá sæti í landsstjórninni hvað sem það kostaði og var ég látin víkja. Ég get ekki sagt neitt um það hvort átök hafi átt sér stað um málið innan flokksins því ég sit hvorki í miðstjórninni né á landsþinginu og kom því ekki nærri ákvarðanatökunni. Og út af fyrir sig hefur það kannski auðveldað mönnum ákvörðunina," sagði Benedikte.

Petersen var varaformaður Siumut-flokksins og hefur setið á landsþinginu, gegnir m.a. formennsku í fjárveitinganefnd þingsins. Hann gegnir starfi flokksformanns fram að flokksþingi á næsta ári er nýr eftirmaður Johansens verður kjörinn.

Stjórnarflokkarnir tveir, Siumut og Atassut, gerðu með sér nýjan stjórnarsáttmála í fyrradag, að sögn grænlenska útvarpsins. Gildir hann fram til næstu landsþingskosninga, sem fram eiga að fara í síðasta lagi í mars 1999. Hann hefur ekki verið gerður opinber, en í frétt grænlenska útvarpsins í fyrradag sagði, að ætlunin væri að færa húsnæðismálin undan efnahags- og fjármálaráðuneyti til ráðuneytis Benedikte Thorsteinsson. Einnig væri ætlunin að gefa heilbrigðis-, umhverfis- og menntamálum aukið vægi í stjórnarstarfinu.

"Í raun og veru hefur ekkert breyst, engin nýmæli eru í endurskoðuðum samstarfssáttmála og ekki heldur áherslubreytingar. Stefnan er óbreytt. Hið eina sem gerst hefur, er að Jonathan Motzfeldt hefur tekið við formennsku í stjórninni af Lars Emil Johansen, sem ákvað að hverfa til annarra starfa, og ég er látin víkja fyrir arftaka Lars Emils á stóli flokksformanns," sagði Benedikte.

"Auðvitað hverf ég úr starfi með söknuði, en hlakka samt til að prófa eitthvað nýtt. Við verðum áfram hér í Nuuk og nú er að finna gott starf. Ég er alls ekki hætt í pólitík, er nýbyrjuð og býð mig örugglega fram við landsþingskosningarnar eftir tvö ár," sagði Benedikte.