Heilsa þeim
fyrir leik
Sigurvin Ólafsson heilsaði uppá
fyrrum félaga sína hjá Stutt gart í gær en sagði að vinskapurinn gleymdist þegar út í leikinn væri komið. "Ég heilsa þeim fyrir leik en lengra nær vinskapurinn ekki fyrr en flautað hefur verið til leiksloka," sagði hann við Morgunblaðið og bætti við að þó Eyjamenn væru í hlutverki "litla" liðsins yrði ekkert gefið eftir.
Hann sagði skemmtilegt að eiga að fara að spila á móti fyrrum samherjum og var sannfærður um að sér yrði hvorki hlíft né hann tekinn fastari tökum en aðrir. "Það eru engar stjörnur hjá okkur en mótherjarnir eru atvinnumenn sem láta jafnt yfir alla ganga og gefa engum tækifæri."
Valinn maður er í hverju rúmi hjá Stuttgart en Sigurvin sagði að leikstjórnandinn Krassimir Balakov væri allt í öllu. "Hann er besti maður liðsins. Úthaldið er ótrúlegt, snerpan mikil, knatttæknin eins og best verður á kosið, skotin góð. Í fáum orðum nær fullkominn leikmaður. Annars eru þetta allt sterkir landsliðsmenn og styrkleiki liðsins felst fyrst og fremst í öflugum sóknarleik en það tekur áhættu í vörninni. Svæði opnast oft og það er atriði sem við getum nýtt okkur."
Morgunblaðið/Golli SIGURVIN Ólafsson tekur hvert verkefni alvarlega. Í gærmorgun var það líffræði í Fjölbrautaskólanum Ármúla en í kvöld Evrópuleikur ÍBV við Stuttgart á Laugardalsvelli.