Eins og kálf-
ar á vorin
Ímiklum hraða-, spennu- og
mistakaleik þar sem framganga leikmanna minnti oft á kálfa sem hleypt er út úr húsi á vorin, tókst Valsmönnum að knýja fram eins marks sanngjarnan sigur, 20:19, að Hlíðarenda.
Þeir höfðu forystu allan leikinn og gestunum tókst aldrei að komast nær heimamönnum, en að jafna metin. "Ég minnist þess ekki að hafa leikið annað en jafna leiki við ÍR, þeir berjast alltaf til loka," sagði Valgarð Thoroddsen, Valsmaður.
"Ég hefði viljað bæði stigin úr þessum leik," sagði þjálfari ÍR, Matthías Matthíasson. "Við vorum alltof gjafmildir, færðum þeim boltann margoft á silfurfati með fljótfærnislegum sóknarleik, en á köflum náðum við upp þokkalegum leik. Ég er hins vegar með ungt lið og það tekur sinn tíma að slípa það."
Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur. Eftir jafnræði á fyrstu mínútum tóku Valsmenn öll völd er á leið hálfleikinn og náðu um tíma fimm marka forystu, 10:5 og 12:7 eftir að þeim tókst að hleypa upp hraða leiksins og leika sterka 5-1 vörn. Þá hrökk Hrafn Margeirsson markvörður ÍR í gang og stórleikur hans í lok hálfleiksins átti stærstan þátt í að hans menn náðu að minnka muninn í eitt mark fyrir hlé, 12:11.
Markverðir beggja liða, Guðmundur Hrafnkelsson og Hrafn, settu mikinn svip á leikinn á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleiks með stórgóðri markvörslu. Er frá leið náðu Valsmenn að síga fram úr, 15:12 en seigla ÍR var mikil og þeir jöfnuðu 16:16 og 17:17. Eftir það komust Valsmenn skrefinu fram úr og héldu því loka.
"Við lékum 5-1 vörn allan tímann og ég er þokkalega sáttur við árangurinn en sóknarleikurinn var á hinn bóginn slakur auk þess sem við fórum illa að ráði okkar í mörgum dauðafærum. Við verðum í toppbaráttunni í vetur," sagði Valgarð Valsmaður.
»Úrslit / B7
Ívar
Benediktsson
skrifar