STJARNAN fór vel af stað á Íslandsmótinu ­ sigraði Fram 33:29 í miklum markaleik í Garðabæ í gærkvöldi. Fram hafði yfir í hálfleik 20:15 og eins og tölurnar gefa til kynna var fátt um varnir. Garðbæingar þéttu vörnina í síðari hálfleik og það réð úrslitum. "Ég er ánægður með liðið í síðari hálfleik, en fyrri hálfleikur var slakur.

Ótrúlegar sveifl-



ur í Garðabænum

STJARNAN fór vel af stað á Íslandsmótinu ­ sigraði Fram 33:29 í miklum markaleik í Garðabæ í gærkvöldi. Fram hafði yfir í hálfleik 20:15 og eins og tölurnar gefa til kynna var fátt um varnir. Garðbæingar þéttu vörnina í síðari hálfleik og það réð úrslitum. "Ég er ánægður með liðið í síðari hálfleik, en fyrri hálfleikur var slakur. Það var eins og leikmenn hafi ekki áttað sig á því að Íslandsmótið væri byrjað. Eftir hlé var ákveðið að taka varnarleikinn föstum tökum og spila agaðri sóknarleik. Það var allt annað að sjá til liðsins í síðari hálfleik," sagði Valdimar Grímsson, þjálfari og leikmaður Stjörnunnar.

Stjarnan á hrós skilið fyrir að snúa nánast töpuðum leik sér í hag í síðari hálfleik. Að sama skapi voru Framarar miklir klaufar að missa niður fimm marka forskot frá því í hálfleik og þurfa að endurskoða varnarleik sinn fyrir næstu umferð.

"Það er alltaf áfall að tapa og ég er mjög óhress með liðið, sérstaklega í síðari hálfleik. Varnarleikurinn var mjög slakur allan leikinn. Sóknin var kannski í lagi í fyrri hálfleik en það var algjört agaleysi í síðari hálfleik. Við vorum með ótímabær skot og það er ýmislegt sem við þurfum að laga fyrir næsta leik," sagði Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Framara.

Fyrri hálfleikur var nánast eins og að horfa á tennis. Boltinn gekk hratt vallarhelminganna á milli og mátti undirritaður hafa sig allan við að skrá mörkin. Sóknir liðanna stóðu sjaldnast lengur en 15 sekúndur áður en skotið kom. Varnirnar voru að sama skapi slakar enda skorað meira en mark á mínútu.

Í síðari hálfleik héldu Framarar áfram sömu skothríðinni og ætluðu helst að gera tvö mörk í hverri sókn. En Valdimar Grímsson ætlaði ekki að láta skjóta liðið sitt í kaf enda ekki á hverjum degi sem lið fær á sig 20 mörk í einum hálfleik. Mótleikur hans var agaður sóknarleikur og öflugur varnarleikur og Fram átti ekkert svar. Stjarnan minnkaði muninn hægt og bítandi og þegar tíu mínútur voru eftir var staðan orðin jöfn, 26:26, og eftirleikurinn auðveldur fyrir heimamenn. Axel Stefánsson varði vel fyrir Stjörnuna á lokamínútunum og lagði sitt af mörkum fyrir lið sitt.

Valdimar Grímsson var mjög sterkur í liði Stjönunnar og tók af skarið er á þurfti að halda. Hilmar Þórlindsson er léttari en oft áður og komst vel frá leiknum. Eyjamaðurinn Arnar Pétursson leikur nú með liðinu og styrkir það. Sigurður Viðarsson tók við leikstjórninni í síðari hálfleik og fórst það vel úr hendi. Stjarnan, sem skoraði 13 mörk úr síðustu 14 sóknum sínum, hefur alla burði til að vera í toppbaráttunni í vetur.

Framarar nýttu sér vel veikleika Stjörnunnar í fyrri hálfleik, en uggði ekki að sér í þeim síðari. Rússinn Oleg Titov lék vel í fyrri hálfleik, fiskaði þá fjögur vítaköst og skoraði þrjú mörk. Það fór hins vegar lítið fyrir þessum stóra leikmanni í síðari hálfleik, enda nánast sveltur á línunni. Sigurpáll Árni og Daði voru góðir í fyrri hálfleik en þeir vilja sjálfsagt gleyma síðari hálfleik eins og aðrir Framarar. Reynir varði þokkalega í fyrri hálfleik, en fékk litla aðstoð frá vörninni í síðari hálfleik og tók þá aðeins þrjá bolta.

Valur B.

Jónatansson

skrifar