Meistarar KA hófu titilvörn sína í Smáranum, þar sem þeir sóttu nýliða Breiðabliks heim og höfðu sigur, 30:22. Áfanganum náði liðið eftir að hafa skipt úr 5-1 vörn í flata 6-0 vörn er staðan var jöfn, 16:16. Sú aðferð bar meiri árangur og Sigtryggur Albertsson, markvörður KA, varði vel í kjölfarið sjö skot eftir hlé auk vítakasts.
Reynslan
reyndist dýrmæt
Meistarar KA hófu titilvörn sína í Smáranum, þar sem þeir sóttu nýliða Breiðabliks heim og höfðu sigur, 30:22. Áfanganum náði liðið eftir að hafa skipt úr 5-1 vörn í flata 6-0 vörn er staðan var jöfn, 16:16. Sú aðferð bar meiri árangur og Sigtryggur Albertsson, markvörður KA, varði vel í kjölfarið sjö skot eftir hlé auk vítakasts. Þannig náðu KA- menn nokkrum góðum skyndiupphlaupum.Nýliðarnir gerðu byrjendamistök þegar þeir fundu fyrir mótlætinu, en sýndu ágætis leik og baráttuvilja lengst af. Þegar harðnaði á dalnum tóku þeir m.a. til bragðs að leika framliggjandi vörn eða að taka leikstjórnandann Halldór Sigfússon og skyttuna Sverri A. Björnsson úr umferð. Meistararnir gerðu þrátt fyrir það mörk í öllum regnbogans litum á lokasprettinum.
Halldór lék af skynsemi og var einn besti maður norðanmanna. Leó Örn Þorleifsson reyndist liði sínu mikilvægur og Sigtryggur varði vel í síðari hálfleik auk þess sem Sverrir átti góða spretti.
Í liði Blika er áhugaverður leikmaður, Brynjar Geirsson. Hann hefur gott skotlag, en var stundum of ákafur. Þjálfari liðsins, Geir Hallsteinsson, var ánægður með leik sinna manna. "Við lékum mjög vel í 40 mínútur, en mikilvægi reynslunnar kom í ljós. Ég er mjög ánægður með strákana. Þeir gerðu það sem fyrir þá var lagt, altént megnið af leiknum," sagði Geir.
Atla Hilmarssyni, þjálfara KA sem var hjá Breiðabliki í fyrra, taldi frammistöðu liðs síns ekki duga gegn sterkari liðum deildarinnar. "Ég er óánægður með leik okkar í fyrri hálfleik, sérstaklega varnarleikinn. Hugarfarið breyttist þó í síðari hálfleik og leikmenn börðust meira. Það gerði gæfumuninn á lokasprettinum. Við sýndum nær enga baráttu fyrir hlé," sagði Atli.
Morgunblaðið/Kristinn REYNSLA KA-manna vó þungt í Smáranum. Sigurbjörn Narfason, leikmaður Breiðabliks, á hér í höggi við Björgvin Þór Björgvinsson. Edwin
Rögnvaldsson
skrifar