Yfirburðir hjá Juve
og Manchester United
JUVENTUS og Manchester
United byrjuðu vel í B-riðli Meistarakeppni Evrópu en fyrsta umferð keppninnar fór fram í gærkvöldi. Juve tók Feyenoord í kennslustund og vann 5:1 en United vann Kosice 3:0.
Manchester United átti ekki í erfiðleikum með Kosice, sem sló Íslandsmeistara Skagamanna úr keppninni í sumar, og vann 3:0 í Slóvakíu. Denis Irwin skoraði eftir hálftíma eftir sendingu frá Andy Cole, Norðmaðurinn Henning Berg bætti öðru marki við eftir aukaspyrnu frá David Beckham um miðjan seinni hálfleik og Cole innsiglaði öruggan sigur skömmu fyrir leikslok.
"Þetta voru góð úrslit fyrir okkur og góð byrjun í keppninni," sagði Alex Ferguson, knattspyrnustjóri United. "Við vorum mjög öflugir í fyrri hálfleik og spilið var gott."
Jan Bodnar, sem tók við stjórninni hjá Kosice skömmu fyrir leik eftir að Jan Kozak hafði sagt starfi sínu lausu í fyrradag af heilsufarsástæðum, var ekki eins hress. "Þetta voru ægileg úrslit fyrir okkur. Við bárum of mikla virðingu fyrir mótherjunum í byrjun sem leiddi til þess að við gerðum mistök sem við gerum ekki í auðveldustu deildarleikjum."
Peter Schmeichel hafði nánast ekkert að gera í marki United og annað mark United slökkti endanlega í heimamönnum. "Kosice lék betur í seinni hálfleik en fyrir hlé en Karel Poborsky hafði það hlutverk að stöðva sóknir þeirra og gerði það," sagði Ferguson. "Cole fékk loks tækifæri og skoraði sem gefur honum aukinn kraft," bætti hann við en hæpið var talið að Cole gæti leikið vegna meiðsla.
Einstefna
Alessandro Del Piero gerði tvö mörk þegar Juventus, sem tapaði fyrir Dortmund í úrslitaleiknum í vor, vann Feyenoord 5:1. Ítölsku meistararnir voru komnir í 3:0 á fyrstu 34 mínútunum með mörkum frá Del Piero og Filippo Inzaghi en Zinedine Zidane og Alessandro Birindelli skoruðu síðan eftir að Di Livio var vikið af velli fyrir að bjarga á línu með hendi snemma í seinni hálfleik en Jean-Paul Gastel minnkaði muninn úr vítaspyrnu sem fylgdi í kjölfar brottrekstursins.
Þetta var 100. Evrópuleikur Juve sem heldur upp á aldarafmæli í ár og liðið fór á kostum. Marcello Lippi, þjálfari þess, hefur sagt að helsta markmiðið á tímabilinu sé að endurheimta bikarinn í Meistaradeildinni og frammistaðan í gærkvöldi bendir til þess að Juve verði erfitt viðureignar í keppninni.
Reuter KAREL Poborsky, tékkneski landsliðsmaðurinn hjá Manchester United, í baráttu um knöttinn við tvo leikmenn Kosice, Andras Telek (t.v.) og Ivan Kozak. Þjálfari United hældi Poborsky.