Geðlæknar segja niðurskurð
fyrir neðan allt velsæmi
GEÐLÆKNAFÉLAG Íslands telur
áætlanir um stórfelldan niðurskurð fjárveitinga til geðdeildanna í Reykjavík vera fráleitar og fyrir neðan allt velsæmi og muni hugmyndirnar leiða til aukins kostnaðar fyrir samfélagið og lakari þjónustu.
Fundur sem haldinn var í Geðlæknafélaginu í gærkvöldi skorar á stjórnvöld að draga tillögur þessar til baka því óeðlilegt sé að láta niðurskurð bitna á þeim sem síst geta borið hönd fyrir höfuð sér.
Geðlæknafélagið telur að nái samkomulag heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, fjármálaráðherra og borgarstjórans í Reykjavík frá 12. september síðastliðnum, sem feli í sér niðurskurð á þjónustu við geðsjúka, fram að ganga muni þjónusta við geðsjúka á landinu skerðast verulega.
Flutningur geðdeildar úr aðalbyggingu SHR sé stórt skref aftur til fortíðar og um leið skerðist þjónusta á stærstu slysavarðstofu landsins, sem verði að geta veitt geðlæknisþjónustu í bráðum tilfellum allan sólarhringinn. Slíkt sé óframkvæmanlegt ef geðdeildin sé ekki í sömu byggingu.