Haukasigur í
miklu fjöri
HAUKAR náðu að sigra Eyjamenn í Eyjum 29:28 í sprellfjörugum og hröðum leik þar sem
nánast sauð upp úr hjá leikmönnum í lokin þegar Eyjamenn voru nálægt því að jafna. "Þetta fer vel af stað hjá okkur, þrátt fyrir að það væri naumt undir lokin, en við náðum að sigra og ég er ánægður með það," sagði Sigurður Gunnarsson þjálfari Hauka en hann var áður með ÍBV.
Eyjamenn misstu nokkra lykil leikmenn frá í fyrra áður en þetta leiktímabil hófst og voru óskrifað blað þegar flautað var til leiks í Eyjum í gærkvöldi. Þeir komu hins vegar vel stemmdir til leiks og höfðu undirtökin í upphafi er þeir voru á tánum í vörninni og keyrðu síðan upp hraðaupphlaupin um leið og þeir unnu boltann.
Lið ÍBV náði fjögurra marka forskoti þrátt fyrir að hafa misnotað fjögur góð færi á stuttum tíma. Þrátt fyrir mótlætið létu Haukar ekki slá sig út af laginu. Eftir rólega byrjun tókst þeim að jafna 9:9 en hraðinn var mikill og mörkin komu hreinlega á færibandi. Heimamenn náðu forystunni á ný og voru með þrjú mörk í forskot er flautað var til leikhlés, 17.14.
Bjarni Frostason markvörður Hauka kom lítið við sögu í fyrri hálfleik, kom aðeins einu sinni inn á leikvöllinn til þess að verja vítakast, en tókst það ekki. Í upphafi síðari hálfleiks var hann greinilega orðinn hungraður í að fá að spreyta sig því hann byrjaði á því að verja af miklum móð. Varði sex mörk á fyrstu fjórum mínútunum og blés þannig félögum sínum baráttuanda í brjóst. Þeim tókst fljótlega að jafna og komast í fyrsta sinn yfir í stöðunni 20:19. Eftir það voru gestirnir yfirleitt skrefinu á undan heimamönnum sem aðeins tókst að jafna nokkru sinni metin.
Undir lokin voru Haukar komnir þremur mörkum yfir, 29:26. Eyjamenn voru hins vegar ekki af baki dottnir og gerðu tvö mörk í röð og komust þar með aftur inn í leikinn. Aron Kristjánsson, leikmaður Hauka, féll gullið tækifæri til að tryggja sínum mönnum sigurinn hálfri mínútu fyrir leikslok er hann tók vítakast. Það varði Sigmar Þröstur Óskarsson, markvörður ÍBV, og heimamenn áttu skyndilega möguleika á öðru stiginu. Þegar 7 sekúndur voru eftir braust Guðfinnur Kristmannsson í gegnum vörn Hauka og vippaði yfir Bjarna í markinu. Í þann mund sem Guðfinnur sleppti boltanum flautuðu dómarar leiksins aukakast ÍBV og þar með rann möguleiki heimamanna á öðru stiginu út í sandinn. Var allt á suðupunkti í húsinu og margir áhorfendur óhressir með framgöngu dómarana.
"Leikurinn var hraður og afdrifarík mistök dómarana í lokin kostuðu okkur annað stigið," sagði Þorbergur Aðalsteinsson, þjálfari ÍBV. "Ég átti von á hörkuleik og það gekk eftir, en því miður komu bæði stigin í hlut Hauka.
Eyjamenn léku í heild prýðilega og eftir fyrsta leik að dæma verða leikir þeirra hraðir og skemmtilegir þar sem Svavar Vignisson, Erlingur Richardsson og Zoltán Belaný njóta sín vel við slíkar aðstæður. Hjörtur Hinriksson, ungur og efnilegur Hafnfirðingur gekk til liðs við ÍBV fyrir tímabilið og virðist ætla að vera góður liðsstyrkur. Hann leikur vel fyrir liðið en lætur það kannski koma um of niður á því að gera meira upp á eigin spýtur.
Lið Hauka fór rólega af stað en sýndi hvers það er megnugt þegar á leið. Þorkell Magnússon átti mjög góðan leik, lipur leikmaður sem nýtir færin sín vel. Petr Baumruk og Aron Kristjánsson voru drjúgir.
Sigfús G.
Guðmundsson
skrifar
frá Eyjum