Asprilla með þrjú
Faustino Asprilla var með þrennu
í fyrsta leik Newcastle í Meist aradeildinni en enska liðið tók á móti Barcelona og vann 3:2 eftir að hafa náð þriggja marka forystu. "Stuðningsmenn Sunderland, fylgist þið með?" sungu áhangendur heimamanna sem troðfylltu St. James' Park og minntu grannanna á ágæti liðsins. Spænska stórveldið neitaði að gefast upp, gerði tvö mörk undir lokin og var nálægt því að "stela" stigi.
Mörkin hefðu auðveldlega getað orðið fleiri. Asprilla og Keith Gillespie náðu vel saman á hægri vængnum og ógnuðu mjög en Brasilíumaðurinn Rivaldo skaut í slá hjá Newcastle. Rivaldo og Sonny Anderson voru að leika fjórða leikinn á 10 dögum, þar á meðal landsleik í Brasilíu, og Vitor Baia lék ekki í marki vegna meiðsla en Börsungar voru ekki með neinar afsakanir.
"Þetta var frábært kvöld fyrir félagið og stuðningsmennina og viðurkenning við hæfi fyrir formanninn sem tilkynnti á mánudag að hann væri að hætta," sagði Kenny Dalglish, stjóri Newcastle. Þetta var líka örugglega stór stund fyrir sir John Hall, sem vildi gera Newcastle að stórveldi á borð við Barcelona, átti sér þann draum að fá sannkallaðan stórleik á St. James' Park og fékk ósk sína uppfyllta í gærkvöldi.
Barcelona ætlaði sér stóra hluti í Newcastle en var brugðið þegar Asprilla skoraði úr vítaspyrnu um miðjan fyrri hálfleik. Skömmu síðar gerði Kólumbíumaðurinn glæsilegt skallamark eftir sendingu frá Gillespie og fljótlega í seinni hálfleik fullkomnaði hann þrennuna með gulli af marki, skallaði í netið sem fyrr eftir sendingu frá Gillespie. "Við töpuðum leiknum í fyrri hálfleik," sagði Hollendingurinn Louis van Gaal, þjálfari Barcelona. "Ég átti ekki von á liði mínu eins daufu og raun var fyrir hlé en Gillespie og Asprilla gerðu út um leikinn."
Luis Enrique minnkaði muninn eftir sendingu frá fyrirliðanum Luis Figo og fyrirliðinn bætti síðan öðru marki við en írski landsliðsmarkvörðurinn Shay Given sá til þess að stigin urðu eftir í Newcastle. "Given var frábær," sagði Van Gaal.
Dynamo Kiev byrjaði vel
Í hinum leik C-riðils vann Dynamo Kiev PSV 3:1 í Eindhoven. "Við lékum vel en þeir nýttu tækifærin," sagði Dick Advocaat, þjálfari PSV. PSV var meira með boltann en sendingarnar voru oft ónákvæmar og skot óvönduð. Gestirnir refsuðu heimamönnum fyrir mistökin og fögnuðu sigri þó markskotin hafi ekki verið mörg. Yuri Maximov og Sergei Rebrov skoruðu með skalla en Andrij Shevchenko innsiglaði sigurinn eftir gagnsókn á síðustu mínútu. "Liðið, sem nýtti færin betur sigraði. Það vorum við," sagði Valery Lobanovsky, þjálfari Kiev. Maximov gerði fyrsta markið eftir 33 mínútur, Wim Jonk jafnaði úr aukaspyrnu fimm mínútum fyrir hlé en kaflaskipti urðu þegar í upphafi seinni hálfleiks er Rebro vvar á auðum sjó og skallaði í netið. "Þetta átti aldrei að gerast aðeins mínúta liðin af hálfleiknum," sagði Jonk, sem skipti Luc Nilis inná í þessari stöðu, en hann hafði ekkert leikið á tímabilinu vegna öklameiðsla. Nilis breytti miklu en þrátt fyrir góð færi tókst heimamönnum ekki að bæta við mörkum.