FLEST mörk voru skoruð í leik Stjörnunnar og Fram í fyrstu umferð 1. deildar karla í handknattleik, en leikurinn fór fram í Garðabæ. Leikmenn liðanna gerðu alls 62 mörk, eða 1,03 mörk á mínútu. Fæst mörk voru gerð í leik Vals og ÍR, 39 talsins eða 0,65 mörk að meðaltali á mínútu.
Flest mörk í Garðabæ FLEST mörk voru skoruð í leik Stjörnunnar og Fram í fyrstu umferð 1. deildar karla í handknattleik, en leikurinn fór fram í Garðabæ. Leikmenn liðanna gerðu alls 62 mörk, eða 1,03 mörk á mínútu.

Fæst mörk voru gerð í leik Vals og ÍR, 39 talsins eða 0,65 mörk að meðaltali á mínútu. Alls voru skoruð 306 mörk í leikjunum sex sem er 51 mark að meðaltali í leik, eða 0,85 mörk að meðaltali á hverri mínútu.

Beláný markahæstur

EYJAPEYJINN Zoltán Beláný gerði flest mörk allra leikmanna í fyrstu umferðinni, tíu talsins, þar af sex úr vítaköstum. Valdimar Grímsson og Hilmar Þórlindsson úr Stjörnunni gerðu hvor um sig átta mörk og sömu sögu er að segja af Frömurunum Daða Hafþórssyni og Sigurpáli Árna Aðalsteinssyni.

Guðmundur varði mest

GUÐMUNDUR Hrafnkelsson, landsliðsmarkvörður úr Val, gekk vaskast fram markvarða í fyrstu umferðinni, varði 18 skot í leiknum gegn ÍR og eitt þeirra var vítakast. Hinum megin stóð Hrafn Margeirsson í markinu og varði hann 17 skot, einu skoti færra en Guðmundur. Bjarni Frostason, markvörður Hauka, var í miklu stuði í Vestmannaeyjum, kom í markið í síðari hálfleik og varði þá 12 skot.

Ekkert rautt vegna reglubreytinga ÞAÐ mátti heyra á leikmönnum 1. deildar karla á blaðamannafundi í fyrradag að þeir hefðu áhyggjur af breyttum reglum, töldu þær leiða til þess að rauðum spjöldum yrði veifað í tíma og ótíma. Ef marka má fyrstu umferðina þá virðast áhyggjur leikmanna ástæðulausar því enginn fékk að sjá rautt hjá dómurum í gærkvöldi vegna breyttra reglna. Aðeins einu rauðu spjaldi var lyft í leikjunum sex. Það fékk Eyjamaðurinn Haraldur Hannesson, fyrir mótmæli undir lok leiksins gegn Haukum.