Markvörðurinn hetja Grikkja
Kyriakos Tochouroglou, sem oft ast er varamarkvörður
Olympiakos, var hetja liðsins í 1:0 sigri gegn Porto í D-riðli meistarakeppni Evrópu í Aþenu í gærkvöldi. Markvörðurinn bjargaði oft meistaralega og getur gríska liðið þakkað honum öðrum fremur fyrir sigurinn. Hann varði oft meistaralega, tvívegis frá Brasilíumanninum Mario Jardel á 16. og 29. mínútu og síðan aftur á 54. mínútu er hann varði skot Jardels af fimm metra færi.
Sigurmark Olympiakos gerði miðvallarleikmaðurinn Stelios Yannakopoulos strax á 6. mínútu með skoti af 25 metra færi og það kætti 75 þúsund áhorfendur á Ólympíuleikvanginum í Aþenu. Porto réði síðan lögum og lofum á vellinum en tókst ekki að koma boltanum fram hjá hetjunni Tochouroglou í markinu.
Antonio Oliveira, þjálfari Porto, var mjög bjartsýnn fyrir leikinn og sagði að lið hans myndi sigra auðveldlega. Dusan Bayevic, þjálfari Olympiakos, sagði eftir leikinn að sigur næðist á vellinum en stór orð fyrir leikinn hefðu enga þýðingu.
Real Madrid burstaði norska liðið Rosenborg 4:1 og er því efst í riðlinum og hefði sigurinn að ósekju getað verið mun stærri, slíkir voru yfirburðirnir. Panucci kom heimamönnum yfir eftir fjórar mínútur og Mini Jakobsen jafnaði tíu mínútum síðar, en þar með var draumurinn búinn. Ze Roberto og Raul bættu við mörkum fyrir hlé og Fernando Morientes gerði eina markið eftir hlé og það mark lét standa á sér því það kom ekki fyrr en sjö mínútum fyrir leikslok.