ÓHÆTT er að segja að yfirstandandi ár hafi verið nokkuð viðburðaríkt á gjaldeyrismarkaði hér á landi sem og erlendis. Langvarandi lægð í efnahagslífi Evrópu auk mikillar vantrúar markaðarins á hina nýju sameiginlegu mynt, Evróið, hefur leitt til þess að gengi helstu Evrópugjaldmiðlanna hefur lækkað verulega á undanförnum mánuðum.
ÐGjaldeyrismark-

aðir í ólgusjó

Íslenski gjaldeyrismarkaðurinn sagði skilið við foreldrahúsin fyrir skömmu er Seðlabanki Íslands hætti öllum beinum afskiptum af gjaldeyrisviðskiptum og viðskiptabankarnir tóku við hlutverki viðskiptavaka. Þorsteinn Víglundsson kynnti sér hvernig til hefði tekist og hvernig markaðnum hefði vegnað við þær aðstæður sem nú eru í alþjóðagjaldeyrismálum.

ÓHÆTT er að segja að yfir standandi ár hafi verið nokkuð viðburðaríkt á gjaldeyrismarkaði hér á landi sem og erlendis. Langvarandi lægð í efnahagslífi Evrópu auk mikillar vantrúar markaðarins á hina nýju sameiginlegu mynt, Evróið, hefur leitt til þess að gengi helstu Evrópugjaldmiðlanna hefur lækkað verulega á undanförnum mánuðum.

Á sama tíma hefur gengi Bandaríkjadollars og sterlingspunds farið hækkandi vegna langvarandi góðæris í þessum tveimur löndum. Hefur þessi þróun leitt til óvenju slakrar stöðu helstu gjaldmiðla Evrópu gagnvart pundi og dollar.

Verulegur vaxtamunur hefur skapast milli helstu Evrópuríkja annars vegar og Bandaríkjanna og Bretlands hins vegar. Hafa flestir evrópskir seðlabankar með þann þýska í fararbroddi haldið vöxtum lágum til að örva fjárfestingu og hagvöxt en í Bretlandi og Bandaríkjunum hefur fremur verið þörf á því að hækka vexti til að sporna gegn ofþenslu í hagkerfinu. Þó hafa vextir í Bandaríkjunum hækkað minna en ráð var fyrir gert í upphafi þessa árs.

Undir þessar sveiflur ýta síðan til skiptis vaxandi eða minnkandi væntingar um vaxtahækkanir í Þýskalandi og Bandaríkjunum og hafa Þjóðverjar haldið markaðnum volgum með því að ákveða endurkaupa- vexti sína aðeins viku fram í tímann hverju sinni. Undir það síðasta virðast líkur á vaxtahækkun þar í landi fara vaxandi vegna ýmissa merkja um aukna þenslu í hagkerfinu.

Á sama tíma og þetta hefur verið að gerast hefur innlendur gjaldeyrismarkaður sagt skilið við foreldrahúsin og verið að feta sín fyrstu spor án handleiðslu Seðlabanka Íslands.

Fyrr í sumar var gerð sú breyting á gjaldeyrisviðskiptum hér á landi að svonefndir skráningarfundir þar sem fulltrúar Seðlabanka og viðskiptabankanna fjögurra komu saman, voru lagðir af, jafnframt því sem á viðskiptabankana voru lagðar kvaðir viðskiptavaka.

Í kjölfarið hafa sveiflur verið nokkuð meiri á gengi krónunnar en menn hafa átt að venjast, þó svo þær verði enn að teljast mjög litlar í alþjóðlegu samhengi.

Leiðir til meiri dýptar í innlendum gjaldeyrismarkaði

Að sögn Einars Pálma Sigmundssonar hjá Íslandsbanka hefur þessi breyting þegar haft nokkur áhrif á gjaldeyrismarkaðinn hér á landi. "Markaðurinn er að verða mun dýpri en áður var eftir því sem viðskipti verða tíðari. Ég held líka að áhrif Seðlabankans muni fara minnkandi eftir því sem dýpt markaðarins eykst. Því mun geta bankans til að hafa áhrif á gengi krónunnar með kaupum og sölu á gjaldeyri fara minnkandi," segir Einar Pálmi.

Hann segist jafnframt telja að þessi breyting muni leiða til meiri sveiflna á gengi krónunnar, án þess þó að ógna stöðugleika hennar, enda hafi reynslan sýnt að krónan, sem sé körfumynt, sé nokkuð stöðugri en aðrar myntir.

Yngvi Örn Kristinsson, framkvæmdastjóri peningamálasviðs, tekur í sama streng og Einar Pálmi hvað áhrif þessara breytinga varðar.

"Breytingin er í raun sú að viðskiptabankarnir hafa tekið við hlutverki viðskiptavakans af okkur. Þó svo það hafi ekki verið formlega frá því gengið þannig, fór lang stærsti hluti gjaldeyrisversluninni í gegnum okkur hér áður.

Eftir að við breyttum kerfinu þá eru það bankarnir sem mynda markaðinn. Okkar inngrip verða minni og krónan hreyfist meira þar sem framboð og eftirspurn á hverjum tíma ræður meira verðinu en áður þegar Seðlabankinn hafði meira dempandi áhrif á sveiflurnar," segir Yngvi.

Hann segir markaðinn í raun hafa gengið í gegnum tvö tímabil frá því viðskiptavaktin hafi verið færð yfir til bankanna. Þannig hafi verið mikið gjaldeyrisinnstreymi fram í ágúst en seinni hluta ágústmánaðar hafi hins vegar verið talsvert útstreymi gjaldeyris á markaðnum. "Gengið hefur endurspeglað þetta. Það styrktist verulega á fyrri hluta þessa tímabils og svo hefur það aftur sigið á síðari hlutanum í kjölfar þess að það hefur verið meiri eftirspurn en framboð," segir Yngvi.

Minnkandi vaxtamunur dregið úr erlendum lántökum

Ein af ástæðum mikils innstreymis gjaldeyris á sínum tíma hefur verið sögð vera miklar lántökur innlendra aðila erlendis til fjárfestinga hér á landi. Voru aðstæður til þessa taldar mjög góðar fyrr í sumar er vaxtamunur var töluverður, gengi evrópskra gjaldmiðla á niðurleið og gengi krónunnar á uppleið. Við þær aðstæður gátu fjárfestar hagnast verulega á gengisþróun lána sinna, sem einnig báru talsvert lægri vexti en hér á landi, til viðbótar við þá háu ávöxtun sem þeir gátu fengið t.d. í ríkisvíxlum.

Aðspurður hvernig þróunin hafi verið í erlendum lántökum hingað til lands, segir Yngvi Örn að heldur hafi dregið úr þeim að undanförnu, auk þess sem fleiri þættir hafi orðið til þess að draga úr þrýstingnum á gengi krónunnar.

"Vaxtamunurinn hefur aðeins lækkað vegna þess að vextir erlendis eru farnir að hækka. Síðan hefur innstreymið líka haft þau áhrif að peningamarkaðsvextir hafa lækkað hér, þar sem mikil eftirspurn hefur verið eftir t.d. ríkisvíxlum.

Hafa vextir þeirra t.a.m. þrýst aðeins niður fyrir okkar repo-vexti sem eru vextir á svokölluðum innistæðubréfum. Þetta endurspeglar væntanlega að auðveldara er að selja ríkisvíxlana en þessi innistæðubréf."

Yngvi segir hér einnig koma til árstíðabundnar sveiflur á inn- og útstreymi gjaldeyris, sem tengist viðskiptum á vöru og þjónustu. Venjulega sé útstreymi í júlí, ágúst og september annars vegar vegna þess að kvótaárinu sé nú lokið og því fylgi minni útflutningur sjávarafurða, auk þess sem innkaupin fyrir jólasöluna séu hafin.

"Svo kann líka að koma hér til að þeir sem hafa tekið fé að láni erlendis til skammtímafjárfestinga hér í peningamarkaðsbréfum hafi dregið úr þessum fjárfestingum. Þar kann að vera að minnkandi vaxtamunur eða jafnvel væntingar um vaxtalækkanir hér geri það að verkum að menn vilji loka stöðum eins og kallað er, þ.e. selja krónur og kaupa erlendan gjaldmiðil. Eins kemur hér til gengislækkun krónunnar, en hún hefur verið að veikjast aftur að undanförnu."

Erlend verðbréfakaup hafa aukist talsvert

Yngvi segir að það sem einnig hafi dregið úr þrýstingi á krónuna í ágúst sé að talsvert hafi verið um verðbréfakaup erlendis í júlí og ekki sé ósennilegt að sú hafi einnig verið raunin í ágúst, en ekki liggja fyrir tölur um það enn. Í júlí hafi u.þ.b. 1,5 milljarðar króna streymt út úr landinu vegna erlendra verðbréfakaupa, sem teljist mjög mikið hér á landi. Hluta þessarar aukningar megi þó ef til vill rekja til þess að viðskipti af þessu tagi eigi sér stað heldur óreglulega, enda taki lífeyrissjóðir sig t.d. yfirleitt saman í slíkum viðskiptum.

"Það sem hefur hins vegar einkennt þróunina undanfarna 12 mánuði er mikil aukning á erlendum endurlánum bankanna. Þeir hafa verið að taka inn erlend lán til endurlána hér. Aukningin á þessum lánum síðustu 12 mánuði er 12,6 milljarðar. Þetta er um 47% aukning frá síðasta ári.

Megnið af þessum lánum eru löng lán, eða tæpir 8 milljarðar, sem bendir til fjárfestinga fremur en spákaupmennsku. Það er rétt að hafa það í huga að bankarnir hafa verið að ná talsverðri markaðshlutdeild af fjárfestingarlánasjóðunum, sennilega þar sem bankarnir bjóða lán á sveigjanlegri kjörum auk tengdrar bankaþjónustu.

Erlendir fjárfestar við þröskuldinn

Enn sem komið er hefur ekki borið mikið á erlendum fjárfestum hér á landi, en að sögn Yngva virðast þeir hins vegar þeir vera farnir að leiða hugann að þeim möguleikum sem hér séu í boði. "Við vitum af mörgum erlendum aðildum sem hafa verið að setja sig inn í markaðinn, koma hingað í heimsókn og læra á kerfið. Þar á meðal hafa verið ýmsir stórir aðilar frá Bandaríkjunum, svo maður nefni dæmi.

Fyrirtæki af þessari stærðargráðu sem hér um ræðir fara ekki inn á svona markað nema að vera búin að kynna sér hann mjög vel og þessar heimsóknir sem hafa verið hér í vor tengjast því. Það getur því örugglega dregið að því að þetta fari að gerast en það hefur hins vegar ekki verið mikið um það enn."

Yngvi segir þó ýmislegt skorta á enn, t.a.m. þá staðreynd að hér sé ekki búið að koma á rafrænni verðbréfamiðlun. "Svo er auðvitað spurning um dýpt markaðarins. Erlendur aðili sem kæmi hingað inn, hann vill átta sig á því hversu auðvelt væri að selja bréf sem hann hefði keypt og hvaða áhrif það hefði á markaðinn.

Okkur sýnist að áhuginn sé fyrst og fremst á ríkisvíxlamarkaðnum. Það er vara sem þeir þekkja mjög vel. Pappírarnir eru tryggir og markaðurinn er nægilega djúpur."

Yngvi segir að tilkoma erlendra aðila inn á fjármagnsmarkaðinn hér á landi myndi hafa mjög þroskandi áhrif á innlendan gjaldeyrismarkað. Hins vegar gætu þau auðvitað haft nokkuð truflandi áhrif líka.

"Þetta myndi líka hafa þann kost fyrir íslenskan markað að þá væru erlendir bankar farnir að taka stöðu í íslenskum krónum og þar með væru bankarnir hér búnir að fá hugsanlegan viðskiptaaðila á móti sér í viðskiptum með krónuna. Svo fylgja því auðvitað viðskipti líka. Þetta myndi því koma með nýja vídd í gjaldeyrismarkaðinn hér á landi."

Vandskýrð þróun á erlendum mörkuðum

Þróun efnahagsmála í Bandaríkjunum að undanförnu hefur um margt verið sérstæð. Þrátt fyrir mjög hátt gengi Bandaríkjadollars hefur útflutningur Bandaríkjamanna haldist áfram að aukast, þvert á það sem yfirleitt gerist við slíkar aðstæður.

Þá hefur minnkandi atvinnuleysi í Bandaríkjunum og Bretlandi ekki haft neitt launaskrið í för með sér, þvert á það sem hinar hefðbundnu hagfræðikeninningar segja að búast megi við.

Þá virðist lítið kræla á verðbólgu í Bandaríkjunum og eru vextir þar í landi t.a.m. mun lægri nú en búist hafði verið við í upphafi árs, þrátt fyrir að spár um hagvöxt hafi í öllum megindráttum gengið eftir. Hefur þessi þróun valdið því að farið er að ræða um nýja tegund hagsveiflu sem kunni að vera talsvert lengri en sú sem menn hafa vanist til þessa.

Er í því samhengi bent á þá miklu framleiðniaukningu sem fylgi tækninýjungum upplýsingabyltingarinnar sem sporni gegn verðbólgu. Einar Pálmi segir þessa þróun nokkuð athyglisverða og nokkrir þættir kunni að skýra hana.

"Það sem hefur knúið þessar gengisbreytingar að undanförnu eru mjög góðar aðstæður í efnahagslífinu í Bandaríkjunum. Bandaríkin eru á sjöunda ári í hagsveiflu og síðan kemur þar á móti mjög slæmt ástand í Evrópu.

Atvinnuástand er bágborið í Evrópu en gott í Bandaríkjunum. Góðærinu þar fylgja mun hærri vextir en í Evrópu sem síðan leiðir til fjármagnsflótta þaðan og til Bandaríkjanna, sem ýtir enn frekar undir þessar hækkanir dollars.

Síðan má ekki gleyma því að Efnahags- og myntbandalag Evrópusambandsins hefur hér líka áhrif. Markaðurinn væntir þess að myntbandalagið verði að veruleika á tilsettum tíma og búist er við því að það verði breiður hópur aðildarríkja sem að því standi strax í upphafi. Þeirra á meðal verði lönd með veika gjaldmiðla svo sem Suður-Evrópuríkin, og því verði Evróið veik mynt. Þess vegna hafa menn selt mark og aðrar Evrópumyntir og keypt dollar."

Einar segir þýska markið hafa verið að styrkjast á undanförnum vikum vegna vísbendinga um að hagkerfið þar í landi sé að rétta úr kútnum og auknum líkum á vaxtahækkunum vegna þess.

Þá hafi líkur á frekari vaxtahækkunum í Bandaríkjunum, Bretlandi og Japan dvínað að undanförnu og hafi það ýtt enn frekar undir styrkingu marksins.

Einar segir að til lengri tíma litið megi áfram búast við sterkum dollar. Bæði komi þar til að markið kunni að veikjast vegna tilkomu EMU og eins vegna mjög góðra aðstæðna í efnahagslífi Bandaríkjanna. Þá eigi enn eftir að koma í ljós hversu viðvarandi vöxturinn sem nú mælist í þýsku efnahagslífi sé.

Einar segir að dollar hafi í júlí náð 7-10 ára hámarki gagnvart helstu Evrópumyntum. Hann hafi lægst farið í 1,35 á móti þýska markinu árið 1995 og tæplega 80 yen. Nú er hann í 120 gagnvart yeni og 1,77 gagnvart marki.

Yfirburðir í hátækni viðhalda vexti í Bandaríkjunum

Einar segir það hljóta að vera nokkuð áhyggjuefni fyrir Bandaríkjamenn hvort þessi háa staða dollars nú muni ekki skerða samkeppnishæfni landisns. Hættan sé sú að viðskiptahalli Bandaríkjamanna muni aukast þar sem innflutningur muni aukast en útflutningur dragast saman.

"Síðustu tölur um viðskiptajöfnuð benda hins vegar til þess að útflutningur sé enn að aukast. Ég held að ástæða þessa sé sú að Bandaríkjamenn eru mjög framarlega á sviði hátæknibúnaðar og því hafa þeir getað lifað við þessa gengishækkun.

Hins vegar hafa þjóðir á borð við Japani og Þjóðverja ekki verið andsnúnar gengislækkunum sinna mynta enda hefur útflutningur þessara landa aukist verulega með lækkandi gengi þessara tveggja gjaldmiðla gagnvart dollar," segir Einar Pálmi.

Markaðurinn ræður meiru um gengi krónunnar

Erlendir fjárfestar farnir að kynna sér markaðinn