ÞÓTT FÆRA megi rök að því að stýrikerfi Macintosh-tölva sé orðið heldur lúið og úr sér gengið verður því ekki neitað að notendaviðmótið er með því besta sem gerist, sérstaklega nýjasta útgáfa þess, OS/8, sem kom út fyrir skemmstu.
Ávísun á vandræði
Tölvur Rétt höfðu stjórar Apple náð kúrsinum þegar þeir voru komnir í ólgusjó aftur. Árni
Matthíasson segir kaup Apple á PowerComputing benda til þess að ganga eigi milli bols og höfuðs á Macintosh-samhæfðum tölvum, enda gafst Motorola upp í kjölfarið.
ÞÓTT FÆRA megi rök að því að stýrikerfi Macintosh-tölva sé orðið heldur lúið og úr sér gengið verður því ekki neitað að notendaviðmótið er með því besta sem gerist, sérstaklega nýjasta útgáfa þess, OS/8, sem kom út fyrir skemmstu. Á sínum tíma hafði Makkinn mikið forskot í notendavænleik og hagræði og þótt það forskot sé að mestu horfið í dag er nokkuð víst að ef frammámenn innan Apple hefðu ljáð máls á því að leyfa framleiðslu á Macintosh-samhæfðum tölvum fyrir fimm árum eða svo notuðu líklega flestir einkatölvunotendur í dag Macintosh stýrikerfi eða eitthvert afbrigði af því.
Segja má að græðgin hafi orðið Apple að falli, því fyrirtækið græddi svo vel á framleiðslu vélbúnaðar, sem lengstaf var seldur á þreföldum framleiðslukostnaði, að stjórnendur þess sáu ekki hvað var að gerast í kringum þá eða fannst lítið til þess koma. (Þegar litið er til söluverðs má þó ekki gleyma því að Apple lagði lengst af meira í þróun en almennt tíðkaðist.) Þegar Microsoft setti á markað frumgerðir Windows notendaskilanna hlógu Apple-menn að klastrinu og enn hlógu þeir þegar Windows 3.0 kom á markað. Þegar svo Windows 95 kom á markað gerðu þeir lítið úr hugbúnaðnum, sögðu Windows 95 er MacOS 86, og vísuðu þá til þess að notendavænleiki Windows 95 væri álíka og Makkamenn hefðu notið í tíu ár. Hljómaði vel í eyrum Makkavina en dugði ekki til að breiða yfir það að MacOs stýrikerfið var frumstætt að mörgu leyti og gamaldags og er enn. (Rétt er að greina á milli notendaskila og stýrikerfis í þessu efni; OS/8 Finder er afbragðs notendaskil, en stýrikerfið á bakvið lélegt að sama skapi.)
Síðustu misseri hefur birt í búðum Apple-manna og flestir tóku því vel þegar stjórnendur þess ákváðu að leyfa framleiðslu á Macintosh-samhæfðum tölvum og enn breikkaði brosið á Makkavinum þegar Steve Jobs sneri aftur til starfa fyrir Apple. Það er mál manna að hann sé stjórnandi Apple þótt hann hafi neitað forstjórastólnum. Jobs hefur verið þakkað/kennt að hætt var að bíða eftir Copland, NeXT keypt og vinna hófst við nútímalegt stýrikerfi, en heimildir eru fyrir því að hann hafi ekki komið að því fyrr en á lokastigum; frumkvæðið hafi komið frá NeXT. Sumir hafa gagnrýnt að Apple hafi keypt stýrikerfi sem markaðurinn var búinn að hafna, en ef áætlanir Apple standast bendir flest til þess að Rhapsody- stýrikerfið verði sú vítamínsprauta sem fyrirtækið þarfnast ef það á ekki útaf að deyja. Önnur ákvörðun stjórnarinnar (Jobs að flestra mati) og öllu umdeildari er aftur á móti að hamast að þeim fyrirtækjum sem haslað hafa sér völl sem framleiðendur Macintosh-samhæfðra tölva.
PowerComputing í matinn
Að sögn þeirra sem til þekkja var Jobs alla tíð á móti því að öðrum en Apple yrði leyft að framleiða Macintosh-tölvur, sem var vissulega góð ákvörðum til skamms tíma og skilaði fyrirtækinu gríðarlegum hagnaði í mörg ár. Til lengri tíma litið var sú afstaða ávísun á vandræði og segir sitt að þó Jobs sé vissulega vel stæður á mælikvarða venjulegs fólks er hann fráleitt í þeirri stöðu sem hann hefði helst viljað ef marka má yfirlýsingar hans frumbýlingsár Makkans.
Líklega hefur það verið um seinan að hleypa öðrum framleiðendum í Makkann, því það eina sem þeir gerðu var að taka sneiðar af köku Apple sem minnkaði sífellt. Það tók framleiðendaklíkuna ekki nema tvö ár að ná 30% markaðshlutdeild, en Apple-menn höfðu spáð því að þeir kæmust upp í 1015% á þeim tíma. Það gat ekki gengið að mati stjórnarinnar að fyrirtæki í erfiðleikum safnaði glóðum elds að höfði sér og því var það að Apple reyndi að halda aftur af keppinautunum. Liður í því var að gera þeim erfitt um vik að selja OS/8 með vélum sínum nema með því að greiða fyrir geypiverð. Þetta kom sér sérstaklega illa fyrir helsta keppinautinn, PowerComputing, sem var búið að undirbúa hlutafjárútboð þegar útspil Apple setti allt úr skorðum. Á endanum fór svo að Apple keypti grunnþætti fyrirtækisins, var í raun að kaupa aftur framleiðsluleyfið á Macintosh- samhæfðum tölvum, og greiddi fyrir 100 milljónir dala eins og komið hefur fram í fréttum. Fjármálaspekúlantar hafa bent á að Apple hafi greitt yfirverð fyrir PowerComputing og sé litið til þess hvað fékkst fyrir peninginn, að frátöldu sölukerfi PowerComputing, sem er geysigott, sé greinilegt að meginmarkmiðið hafi verið að koma því fyrir kattarnef. Kom og á daginn að um leið og Apple hafði étið kjarnann úr PowerComputing var ekkert mál að semja við Umax um OS/8-leyfi. Reyndar hefur Umax ekki náð eins langt í Bandaríkjunum og PowerComputing, en er aftur á móti sterkt í Austurlöndum; er þar að vinna nýja markaði sem er vitanlega hið besta mál.
Ekki er gott að spá um framtíð framleiðenda Macintosh-samhæfðra tölva. PowerComputing framleiðir MacOS tölvur út þetta ár, en hvað verður um þá sem eftir eru er ekki gott að segja. Þó Apple sé búið gefa eftir í OS/8 málum er óvissutími framundan, því deilt er um CHRP-vélbúnaðarstaðalinn sem Apple neitar að leyfa öðrum að nota. Líklega á Umax þó eftir að halda velli, ekki síst vegna velgengni í Austurlöndum, en Motorola sprakk á limminu með StarMax 6000-tölvugerðina. Sú byggði á CHRP og þegar ljóst varð að Appla ætlaði ekki að gefa leyfi fyrir tækninni var sjálfhætt.
Ekki er síðan til að auka trú á Macintosh-samhæfðum tölvum að Motorola lýsti því yfir fyrir skemmstu að það hygðist leggja minni áherslu á PowerPC-örgjörva fyrir tölvur, en örgjörvar Makkans eru einmitt PowerPC. Fyrirtækið hyggst þess í stað legga harðar að sér í smíði PowerPC-stýriörgjörva fyrir farsíma, bíla og ýmislegan annan búnað. Ekki er gott að segja hvort þessi yfirlýsing sé til þess ætluð að ýta við Apple, en tölurnar segja sitt, framleiðsla Motorola og IBM á PowerPC örgjörvum, sem notaðir eru í Macintosh- og AS/400-tölvur, er komin niður í 5 milljón örgjörva á ári á meðan Intel selur hátt í 100 milljónir örgjörva og ótaldar milljónir koma úr smiðjum AMD og Cyrix.
Athugasemdum og ábendingum um efni má koma til arnim Þ mbl.is.