MARGRÉT EINARSDÓTTIR
Margrét Einarsdóttir fæddist 12. maí 1905 á Bakka á
Akranesi. Hún lést á heimili sínu, Furugerði 1 í Reykjavík, 8. september síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Einar Ingjaldsson, útvegsbóndi á Bakka, f. 29. ágúst 1864 í Nýlendu á Akranesi, d. 31. júlí 1940, og Halldóra Helgadóttir, f. 6. september 1876 í Fljótstungu í Hvítársíðu, d. 30. október 1964. Alsystkini hennar voru Guðrún, f. 17. október 1906, d. 25. október 1985; Þorbjörg, f. 29. júní 1910, d. 14. maí 1980; Helgi, f. 2. maí 1912, d. 9. janúar 1964; Sigríður, f. 28. október 1914, og Halldór, f. 1. mars 1926. Hún átti einnig hálfbróður, Júlíus, f. 24. júlí 1902, d. 21. júlí 1973, sem hún ólst upp með í foreldrahúsum. Hann var sonur Margrétar, systur Halldóru, er verið hafði kona Einars, en hún dó sex dögum eftir fæðingu sonar síns. Margrét átti þrjú börn með Jónasi Karlssyni kennara, f. 2. apríl 1907, d. 10. september 1984, syni Karls Einarssonar, bæjarfógeta, og Elínar Stephensen. Þau gengu þó aldrei í formlegt hjónaband, sökum sjúkdóms er á hann sótti og ekki varð læknaður. Börn þeirra voru: 1) Jónas, f. 24. apríl 1936, d. sama dag. 2) Elín Íris, f. 16. júlí 1937, d. 8. september 1962, gift Hákoni Magnússyni skipstjóra, og áttu þau tvær dætur, Margréti og Guðbjörgu Magneu. 3) Halldóra, f. 16. apríl 1942, og á hún tvær dætur, Írisi Margréti og Völu. Margrét stundaði nám í Kvennaskólanum 1924-25 og frá þeim tíma barnakennslu til 1930, en síðan í Hjúkrunarskólanum í Reykjavík og lauk þaðan prófi 1934. Hún vann við hjúkrunarstörf í Englandi 1934-35, en eftir það hér á landi allan sinn starfsaldur. Hún var meðal annars yfirhjúkrunarkona í Arnarholti á Kjalarnesi frá 1945-55 og deildarstjóri á Borgarspítalanum frá 1955-70, er hún lét af störfum. Útför Margrétar fer fram frá Akraneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.