Margrét Einarsdóttir Í dag er jarðsungin föðursystir mín, Margrét Einarsdóttir frá Bakka á Akranesi. Ég átti mestan hluta æsku- og unglingsára minna norðanlands, fjarri föðurfólki mínu, og kynntist því ekki frænku minni á þeim árum. Var það ekki fyrr en ég hugði á háskólanám á síðari helmingi sjöunda áratugarins að leiðir okkar lágu saman hér syðra í Reykjavík. Þá skaut hún yfir mig skjólshúsi, þótt hún hefði ekki of mikið rými, sem ég fæ seint fullþakkað. Ég kynntist hæglátri konu og einkar vandaðri til orðs og æðis, sem þó bjó yfir sérstakri kímni, er minnti mig á föður minn, er ég hafði misst á menntaskólaárunum. Þá var allt fas hennar með glæsibrag eins og hefðarkonu. Frá þessum tíma hélt ég góðum tengslum við hana, leit gjarnan inn hjá henni og þáði góðgerðir í eldhúskróknum og fræddist þá ekki síst um sitthvað er varðaði föðurættina.

Margrét var hjúkrunarkona og hafði fyrr á árum ráðist til slíkra starfa í Englandi til að afla sér reynslu og þekkingar á erlendri grund. Hér heima vann hún síðan farsælt ævistarf við umönnun á sjúkrahúsum, þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir. Undir ævilokin var hún orðin þreytt og ellimóð og kveið í engu dauða sínum.

Þegar ég kynntist Margréti frænku var hún lífsreynd kona. Hún hafði eignast þrjú börn og misst tvö þeirra, son, Jónas, sem hafði dáið skömmu eftir fæðingu og dóttur, Írisi, sem lést af slysförum í blóma lífsins frá tveimur kornungum dætrum. Halldóra, sem var yngst, bjó með móður sinni og hefur verið mér kær frænka alla tíð frá því við kynntumst. Á hún tvær dætur sem ólust upp með ömmu sinni og nutu umhyggju hennar öll sín uppvaxtarár.

Margrét verður lögð til hinstu hvíldar í kirkjugarðinum heima á Akranesi, eins og hún komst ætíð að orði, við hlið Írisar dóttur sinnar. Svo undarlegar geta tilviljanirnar verið ­ eða eru það ef til vill örlögin ­ að þær mæðgur eiga sama dánardag.

Ég bið Halldóru frænku og öðrum afkomendum Margrétar föðursystur minnar allrar blessunar.

Ögmundur Helgason.