Margrét Einarsdóttir Elsku amma mín.

Nú loksins fékkstu að ferðast til landsins eilífa eins og þú varst farin að bíða eftir seinustu árin. Þér fannst allt of mikið að vera orðin 92 ára, en þá sagði ég oft, bíddu bara, amma mín, þegar þú verður 100 ára þá höldum við almennilega veislu. Mér varð þó ekki að ósk minni að þessu sinni. En ég átti góðan tíma með henni ömmu, því við bjuggum saman nokkrir ættliðir til margra ára og þá var ætíð margt brallað á heimilinu. Amma var mér sem besta vinkona, hún var alltaf til staðar fyrir mig, allt frá því hún hélt á mér við skírn mína til hinna seinustu daga. Hún var alltaf boðin og búin til að hjálpa og hvetja mann áfram hvort sem það var við heimanámið eða píanóæfingarnar, sem hún reyndar rak mig alltaf til að gera. Henni fannst svo gaman þegar ég spilaði fyrir hana, sérstaklega The Entertainer, enda varð hún hálfmóðguð þegar ég hætti að stunda píanónámið.

Amma Margrét var eina amman sem ég átti en hún var á við margar. Ég vil bara þakka henni fyrir allt sem hún gerði fyrir mig og sérstaklega fyrir seinustu dagana í lífi hennar en ég var svo lánsöm að fá að eyða þeim með henni ásamt öðrum ástvinum. Hún amma var einstök, höfuð ættarinnar, sterk og dugmikil kona sem þó hélt húmornum til seinasta dags.

Amma, ég gleymi þér aldrei og minningarnar um þig mun ég ætíð geyma næst hjartastað.

Þín,

Vala.