Margrét Einarsdóttir Það er skrítið að skrifa minningargrein um konu sem mér finnst svo stutt síðan ég kynntist. En ég var svo heppinn að fá að taka þátt í lífshlaupi hennar í 7 ár. Ég kom inn í fjölskyldu sem var svo samheldin og hafði á að skipa fjórum ættliðum en þar var Margrét í fararbroddi.

Margréti ömmu var ég farinn að kalla hana með tíð og tíma, ekki vegna þess að hún væri gömul, heldur kom hún fram við mig eins og hún væri amma mín. Þær minningar sem ég á með henni eru svo yndislegar, að í hvert sinn sem ég hugsa til hennar er hún alltaf með bros á vör. Við gátum gert að gamni okkar á öllum stundum og þegar leið að hinstu stundinni gat hún samt komið mér til að hlæja og mér tókst að láta hana brosa. Þetta var svo dæmigert með okkar vinskap. Að geta munað bros frá konu sem var að kveðja okkar heim í faðmi fjölskyldunnar, er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma.

Það lá nú oft við sprengingu á Grettisgötunni þegar ég fór að stríða þeirri gömlu, þó sérstaklega þegar Akranes átti í hlut, þá gat hún svarað fullum hálsi, þannig að það var farið að fara um hina fjölskyldumeðlimina og báðu þeir mig þá vinsamlega um að hætta í hvelli áður en amma fengi slag. Þá litum við Margrét hvort á annað og hlógum. Það var svo margt í hennar fari sem fékk mig til að brosa að ég gæti skrifað endalaust. Mikið á ég eftir að sakna hlátursins og fallega brossins.

Elsku Margrét, takk fyrir okkar stundir og vinskap. Guð blessi þig og minningu þína.

Elsku Dóra, Íris og Vala. Guð blessi ykkur öll.

Nú samvist þinni ég sviptur er

­ ég sé þig aldrei meir!

Ástvinirnir, sem ann ég hér,

svo allir fara þeir.



Já sömu leið! En hvert fer þú?

þig hylja sé ég gröf

­ þar mun ég eitt sinn eiga bú

of ævi svifin höf.



En er þín sála sigri kætt

og sæla búin þér?

ég veit það ekki! ­ sofðu sætt!

en sömu leið ég fer.

(Kristján Jónsson.) Þinn vinur,

Stefán Óli.