Herdís Þorsteinsdóttir Elsku mamma.

Nú, þegar komið er að kveðjustund, hellast yfir mann ljúfar minningar úr æsku, þegar við vorum ein heima og síðar þegar ég eignaðist fjölskyldu og börnin komu hvert af öðru. Alltaf varst þú reiðubúin að passa strákana fyrir okkur Selmu og eins var það þegar við eignuðumst tvö yngri börnin. Þú varst alltaf að sauma eitthvað á börnin eða að prjóna peysur og vettlinga. Það var sú hugsun þín að reyna að hjálpa öllum og gera allt fyrir alla sem fylgdi þér alla tíð og gerði þig að einstakri manneskju. Því var svipað farið þegar þú fékkst lóttóvinninginn, þá varst þú ekki í rónni fyrr en þú hafðir deilt honum út til allra þinna nánustu og sagðir að því loknu: "Guði sé lof að þetta er búið." Eins er það mér ofarlega í huga þegar að jólaundirbúningi kom. Þá komum við saman og steiktum laufabrauð, og á gamlárskvöld komum við alltaf til þín í yfir 20 ár og alltaf var tilhlökkunin jafn mikil. Eins er mér það minnisstætt þegar við fórum norður á æskuslóðir þínar, hve gaman var að labba með þér upp í gil, þar sem þú þekktir hverja þúfu og sagðir okkur sögur úr æsku og hljópst nánast um allt, þótt þú værir komin á efri ár. Já, það eru margar minningar sem þjóta um hugann og maður nær ekki að setja niður á blað.

En að leiðarlokum vil ég þakka þér fyrir einstætt samband við Selmu konu mína og börnin mín, missir þeirra er mikill, ekki síður en minn. Far þú í friði, mamma mín, og megi góður Guð blessa þig.

Þinn sonur,

Gunnar.