Herdís Þorsteinsdóttir
Dísa amma er dáin eftir langa
og gæfuríka ævi. Minningarnar um yndislega manneskju lifa áfram í hugum okkar. Betri ömmu er ekki hægt að hugsa sér. Ofarlega í huga okkar eldri strákanna eru samverustundirnar í Meðalholtinu, þegar hún passaði okkur alla fjóra og við máttum vaka lengur, horfa á kúrekamyndir, borða popp og ekki vildum við sofna fyrr en hún hafði sagt okkur einhverja sögu. Hún var alltaf reiðubúin að hjálpa okkur á einn eða annan hátt. Hún létti mikið undir með foreldrum okkar á þessum árum þegar hart var í búi enda voru þau ekki nema rétt rúmlega tvítug og komin með fjóra stráka. Hún lét sig ekki muna um að sauma alklæðnað á okkur alla og það nokkrum sinnum á ári og það var altalað hversu glæsilega við litum út, allir í eins fötum. Enda komust fáar saumakonur með tærnar þar sem hún hafði hælana hvað varðaði vinnuhraða og vinnubrögð. Gott dæmi um það var þegar hún var að hætta að vinna sökum aldurs, þá á sjötugasta aldursári, þá var hún kvödd með virktum og verkstjórinn hennar á saumastofunni í Hagkaup sagði að hún væri enn meðal þeirra allra afkastamestu þrátt fyrir þennan háa aldur.
Að dvelja í Meðalholtinu urðu fastir punktar í tilveru okkar og þar máttum við gera það sem okkur langaði til, t.d. spila fótbolta innandyra en það fengum við ekki að gera annars staðar. Þegar Selma og Nonni fæddust, urðum við hinir eldri þess enn betur áskynja hversu ljúf og góð hún var og yngri systkinin hændust strax að henni og vildu helst ekki annars staðar vera.
Amma var þannig manneskja að hún sá alltaf það góða í öðrum og trúði aldrei neinu illu upp á aðra og hugsaði fyrst og fremst um það að hjálpa öðrum en lét sjálfa sig mæta afgangi. Það var sama hver kom til hennar, hvort sem það var sölumaður eða náinn ættingi, alltaf tók hún á móti þeim opnum örmum. Við söknum hennar öll mikið og minnumst hennar ávallt þegar að gamlárskvöldi kemur því þá var hún vön að bjóða okkur í stórsteik og við biðum eftir þessu með óþreyju. Nú vitum við að hún er komin á góðan stað og vafalaust hrókur alls fagnaðar og líður vel.
Elsku amma, við þökkum þér fyrir allt og allt og megi góður Guð fylgja þér.
Hilmar, Sigurður,
Kristinn, Yngvi, Jón og
Selma Gunnarsbörn.