Halldór Bragason Þegar ég var 15 ára, byrjaði ég ásamt nokkrum vinum og félögum úr Laugalækjarskóla að æfa og spila handknattleik með Þrótti. Fljótlega fórum við að fylgjast með meistaraflokki félagsins, enda stefndi hugur okkar flestra þangað. Einn af lykilmönnum meistaraflokks Þróttar á þeim tíma var Halldór Bragason, þá 22 ára. Nokkrum árum síðar vorum við vinirnir farnir að spila með meistaraflokknum og þrátt fyrir sjö ára aldursmun myndaðist sérstök vinátta með mér, Jóa Frímanns og Dóra Braga. Dóra var það gefið að hann náði góðum árangri með allt, sem var kringlótt og er einn af fáum, sem keppti í handbolta, fótbolta og körfubolta. Körfuboltann lagði hann þó fljótlega á hilluna, sem keppnisíþrótt. Dóri var burðarás meistaraflokks Þróttar í knattspyrnu til margra ára og það voru ófáar sóknir andstæðinganna, sem brotnuðu einmitt á honum. Einnig var maður hissa á því hvað hann var fljótur að ná góðum árangri í golfíþróttinni.

Sumarið 1982 fórum við, þ.e. Dóri, Jói, ég og Haukur Þorvalds ásamt fjölskyldum okkar, til Ibiza og vorum þar í þrjár vikur. Við vorum þarna í júlí og lentum í hitabylgju hluta af tímanum. Dóri og Jói notuðu yfirleitt heitasta tíma dagsins til að tefla og er mér alltaf minnisstætt að horfa á þá sitja rennsveitta við taflmennskuna. Í þessari sömu ferð upplifði maður fyrst nálægðina við úrslitakeppni HM í knattspyrnu og er ólýsanleg sú stemmning, sem var í hópnum þegar við horfðum á úrslitaleikinn í beinni útsendingu.

Það sem einkenndi helst leikstíl Dóra í handboltanum var það að hann kom ávallt þannig að vörn andstæðinganna að þeir héldu að hann væri hættur við að sækja að þeim. Man ég eftir mörgum tilvikum þar sem þjálfarar mótherjanna reittu hár sitt eftir að Dóri hafði skorað eða gefið á línuna og þjálfararnir kölluðu til sinna manna að þeir ættu að taka þennan mann betur, hann hætti aldrei, hann kæmi alltaf aftur.

Því miður lá það ekki fyrir Dóra að koma aftur úr þessari baráttu sinni við þennan erfiða sjúkdóm. Ég og fjölskylda mín ásamt öllum Þrótturum sendum Þorbjörgu, Dóru og fjölskyldum þeirra innilegustu samúðarkveðjur á þessari sorgarstundu.

Sveinlaugur Kristjánsson.