Hrefna Þorsteinsdóttir
Hrefna, vinkona mín, er horfin
yfir móðuna miklu. Á slíkum vegamótum leita gamlar minningar gjarnan fram í hugann.
Leiðir okkar Hrefnu lágu fyrst saman haustið 1970 þegar ég gerðist leigjandi hennar og undir hennar þaki dvaldi ég í fimm og hálfan vetur. Ekki var liðinn langur tími þegar samskipti húsráðandans og leigjandans gerðust afar óformleg og með okkur tókst vinátta sem varað hefur síðan. Sennilega höfum við brúað kynslóðabilið því að aldursmunur okkar var meiri en fjörutíu ár. En Hrefnu var í ríkum mæli gefin sú lífsgleði, fordómaleysi og glettni sem gerði henni einkar auðvelt að umgangast fólk og skipti aldur þess engu máli. Ekkert var fjær henni en að fjargviðrast yfir hlutunum. "Ég hlusta nú ekki á svona vitleysu," sagði hún stundum þegar henni fannst smámunasemi annarra ganga úr hófi fram.
Þær eru margar ánægjustundirnar sem ég átti í félagsskap Hrefnu bæði meðan ég leigði hjá henni og seinna. Glaðlyndi hennar og lífsorka gerðu það að verkum að ég hygg að hver maður hafi gengið glaðari af hennar fundi en hann kom. Hún gekk jafnan beint að verki og allt óþarfa vafstur var ekki hennar siður.
Eitt sinn þegar ég heimsótti hana var hún að taka á móti sófasetti sem hún hafði fest kaup á eftir stutta umhugsun. Við baukuðum við það fram eftir kvöldi að finna húsgögnunum stað. Þá höfðu flestir hlutir í stofunni verið hreyfðir í tilraunaskyni en eftir það var fáu haggað.
Hrefna átti góða fjölskyldu sem lét sér afar annt um hana og hún fékk notið þess að sjá þrjár kynslóðir afkomenda sinna vaxa úr grasi. Hún var mannblendin og gestrisin að eðlisfari og því var oft gestkvæmt hjá henni og ef dæma má af öllum þeim heimboðum sem hún fékk hefur hún alls staðar verið sjálfsagður gestur hjá frændum og vinum enda vafalaust hvarvetna verið hrókur alls fagnaðar.
Ég minnist þess að einu sinni hringdi Eggert, sonur hennar, þrjú kvöld í röð og alltaf svaraði ég þar sem móðir hans var ekki heima. Þriðja kvöldið varð honum að orði að ekki væri að því að spyrja, gamla fólkið væri úti að ralla en ungdómurinn sæti heima. Auðvitað lét ég Hrefnu heyra þessi ummæli og hún skemmti sér konunglega.
Hrefna átti því láni að fagna að vera heilsuhraust mestan hluta sinnar löngu ævi þó að ellin gerðist æ ágengari við hana hin síðustu ár. Þrátt fyrir háan aldur og þverrandi líkamsþrótt var lundin þó alltaf létt.
Með Hrefnu er gengin góð og mæt kona sem í meira en níutíu ár axlaði byrðar sínar með jafnaðargeði og veitti jafnframt birtu og gleði inn í líf þeirra sem kynntust henni.
Ég kveð Hrefnu með þökk og virðingu. Minning hennar verður mér alltaf kær og ég tel mig ríkari vegna kynna minna af henni.
Fjölskyldu hennar sendi ég innilegar samúðarkveðjur og góðar óskir.
Kristín Á. Þorsteinsdóttir.