Stefanía Jónsdóttir
Í dag er komið að kveðjustund.
Elskuleg amma mín og nafna verður til moldar borin á sínu hundraðasta aldursári. Við sem eftir lifum ættum að gleðjast. Gleðjast yfir því að hún amma er nú komin til þeirra heimkynna sem hún þráði svo mjög að komast til.
99 ár, næstum 100 eru langur tími og ömmu fannst að nú væri sínu dagsverki lokið og hvíldin vel þegin. Amma bar annars aldur sinn með reisn fram á síðasta dag, sátt við sitt lífshlaup, bæði guð og menn.
Amma var fædd á Hrauni, Sléttuhlíð. Þar bjó hún einnig stærstan hluta starfsævi sinnar. Þar bjuggu þau afi við búskap til ársins 1964.
Amma var glaðlynd, létt á fæti á yngri árum, því að margir voru snúningarnir á stóru heimili. Hún hafði yndi af því að hafa margt fólk í kringum sig og mikið fjör.
Mín fyrsta minning um ömmu meðan ég ennþá var á barnsaldri og var að kveðja hana er þegar hún dró upp brjóstsykurspoka úr svuntuvasanum og hún bauð ekki upp á einn mola, heldur allan pokann. Seinustu árin hennar, jafnt sem fyrri, var það markmið hennar að eiga alltaf eitthvað gott til að bjóða barnabörnum og barnabarnabörnum upp á.
Amma var höfðingi í sér og hafði gaman af að vera með góðan mat og mikinn mat og helst kaffihlaðborð á milli allra matmálstíma.
Þegar ég var 8 ára var amma flutt til borgarinnar úr sveitinni sinni. Þá fékk ég að heimsækja hana ásamt Rannveigu frænku minni og dvelja hjá henni í hálfan mánuð. Þá var amma ennþá ung, innan við sjötugsaldurinn. Þá fór hún með okkur frænkurnar í gönguferð í Grasagarðinn í Laugardalnum til að sýna okkur fegurð borgarinnar og við fórum líka í strætó til að versla í bænum.
Eitt af áhugamálum ömmu var að spila vist. Hún bauð til sín systrum sínum, stelpunum, til að borða og spila. Við sem yngri vorum fylgdumst með og leystum af í byrjun en upplifðum um leið spennuna og fjörið kringum spilin. Amma hafði gaman af að græða í spilunum og jafnvel gorta af því ef vel gekk. Þá tók hún gjarnan í höndina á mótspilaranum til að þakka samstöðuna.
Síðasta áratuginn, að undanskildu hálfa árinu í Sunnuhlíð, dvaldi amma hjá Helgu dóttur sinni og Pétri á Sauðárkróki. Þar leið henni vel og um hana var vel hugsað. Þeim sem þangað komu var gjarnan boðið að spila og þar var spilað og spilað meira.
Þá hafði amma sett kvóta á ferðalög sín og dregið sig í hlé frá veisluhöldum í fjölskyldunni. Eitt ferðalag varð hún þó að fara á hverju sumri og lét sig hafa það. Það var ferðalagið í sumarbústaðinn á Hrauni á hverju sumri. Þangað heimsótti ég og mín fjölskylda ömmu og Helgu frænku og Pétur, nánast á hverju sumri. Og það leið ekki langur tími þar til spilin voru sótt og amma fyrsta manneskjan til að setjast að spilaborðinu.
Sumarið 1996 var síðasta sumarið sem amma dvaldi á Hrauni í húsinu sem þau afi byggðu. Ég held að hún hafi spilað alveg jafn vel þá, 98 ára gömul, eins og þeir sem yngri voru. A.m.k. græddum við amma saman það sumarið.
Elsku amma mín, innilegustu þakkir fyrir allar samverustundirnar, gjafir þínar stórar og smáar. Minningin um hlýja, stórhuga konu lifir áfram með okkur aðstandendum hennar.
Stefanía Björg Stefánsdóttir.