Stefanía Jónsdóttir
Bognar aldrei brotnar í
bylnum stóra seinast.
(S.G.S.) Mig langar með nokkrum orðum
að minnast afasystur minnar, Stefaníu Jónsdóttur frá Hrauni í Sléttuhlíð. Stebba frænka eins og ég kallaði hana var í miklu uppáhaldi hjá mér og ég leit á hana sem eins konar ömmu. Hún og eins Helga dóttir hennar reyndust mér alltaf svo vel. Þau fjögur ár sem ég stundaði nám á Sauðárkróki reyndi ég að fara reglulega í heimsókn á Hólaveginn. Þar var alltaf tekið vel á móti mér með kökum og öðru góðgæti. Síðan náði Stebba í súkkulaðiskálina inn í ísskáp og hætti ekki fyrr en ég var búin að klára úr henni. Svo var spjallað um heima og geima og stundum gripið í spil. En alltaf var Stebbu mest umhugað um sveitina og hvernig foreldrar mínir hefðu það nú.
Einnig eru mér minnisstæðar heimsóknirnar í Hraun á sumrin. Það var alltaf svo hlýtt og notalegt að koma inn í eldhúsið og þar sat Stebba í stólnum við hliðina á eldavélinni og sagði: "Nei, ertu nú komin til að heilsa upp á kerlinguna, blessunin mín." Og oftar en ekki laumaði hún einhverju í lófa minn þegar ég fór og bað Guð að blessa mig.
Heimsóknunum fækkaði þegar Stebba fór suður en ég fór einu sinni til hennar með móður minni og systkinum og þannig vil ég muna hana. Hún sat á rúminu sínu svo glerfín og við töluðum m.a. um hvað barnabörnin hennar væru að gera þessa dagana og það var hún alveg með á hreinu. Hún hafði sérstakar skoðanir á málum nútímans og lét þær óspart í ljós. Það var gaman að hlusta á þær því þær voru bæði heilsteyptar og sannar eins og hún sjálf.
Ég þakka góðum Guði fyrir að leyfa mér að kynnast henni Stebbu frænku og ég veit að hún er komin á góðan stað þar sem vel er tekið á móti henni. Ég ásamt foreldrum mínum og systkinum sendi fjölskyldu Stefaníu samúðarkveðjur.
Elfa Hrönn Friðriksdóttir,
Höfða.