Klara Ingvarsdóttir
Elsku amma mín, það er svo erfitt að trúa því að þú sért farin frá
okkur. Þú hefur alltaf verið til staðar fyrir mig og okkur öll, bæði þegar eitthvað hefur bjátað á og eins á gleðistundum. Þú hefur alltaf haft faðm þinn útbreiddan fyrir okkur og verið svo hjartahlý og góð. Nú geta litlu ömmubörnin og langömmubörnin þín ekki lengur skriðið upp í hlýjan faðm þinn eins og ég gerði svo oft þegar ég var lítil. Þú fylgdist svo vel með okkur öllum og gerðir okkur kleift að fylgjast hvert með öðru og styrkja þannig tengslin okkar á milli. Það er svo margt sem ég vil segja en ég á svo erfitt að koma því frá mér. Þú og afi hafið alltaf verið svo stór hluti af lífi mínu allt frá því að ég bjó hjá ykkur ásamt mömmu og pabba fyrstu æviárin mín. Ég á svo ótal margar góðar minningar með þér og afa, bæði af Ægissíðunni og frá hinum mörgu tjald- og sumarbústaðaferðum sem ég fór með ykkur. Síðasta langa ferðalagið sem ég fór með þér og afa var sumarið 1991 þegar við fórum til Egilsstaða. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að fara með ykkur þessa ferð þar sem við áttum svo yndislegan tíma saman.
Þegar mamma og pabbi byggðu sumarbústaðinn í vor hélt ég að ég gæti átt aftur með ykkur afa slíkar stundir í Sólbrekku, en sú varð ekki raunin. Þú varst búin að vera svo lasin í sumar að þú treystir þér ekki að vera þar hjá okkur nema eina helgi. Nú þegar allt leit svo vel út varst þú tekin frá okkur og við munum ekki eiga fleiri stundir saman. Þegar ég kvaddi þig á fimmtudaginn fyrir viku hvarflaði það ekki að mér að það ætti eftir að vera síðasta stundin okkar saman. Ég sakna þín svo sárt, elsku amma mín, en ég veit að þú verður samt alltaf hér hjá okkur og fylgist með okkur. Ég þakka þér fyrir allar minningarnar sem þú hefur gefið mér og allt það sem þú hefur kennt mér. Ég þakka þér einnig fyrir allar gjafirnar sem þú hafðir gert sjálf í höndunum og gefið mér því nú eru þær mér svo dýrmætar. Minninguna um þig, elsku amma mín, mun ég geyma í hjarta mér um alla ókomna framtíð.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem.) Elsku afi, ég bið Guð um að veita þér og öllum aðstandendum styrk á þessum erfiðu tímum. Guð geymi þig, elsku amma mín.
Þín ömmustelpa,
Hrönn.