TOLLHEIMTUMENN eru gömul stétt. Þeirra er m.a. getið í helgri bók (Lúk. 18) og jafnframt faríseanna, sem þökkuðu fyrir að vera ekki eins og þessir tollheimtumenn og aðrir ónefndir. Þar sem undirritaður hefur fyrr á árum pantað bók og bók frá útlöndum (helst Danmörku) hefur hann nokkur kynni af tollpóststofunni í Reykjavík, skrifræði og stirðbusahætti.
Tollheimtumenn og
farísearHaraldi Guðnasyni:
TOLLHEIMTUMENN eru gömul stétt. Þeirra er m.a. getið í helgri bók (Lúk. 18) og jafnframt faríseanna, sem þökkuðu fyrir að vera ekki eins og þessir tollheimtumenn og aðrir ónefndir.
Þar sem undirritaður hefur fyrr á árum pantað bók og bók frá útlöndum (helst Danmörku) hefur hann nokkur kynni af tollpóststofunni í Reykjavík, skrifræði og stirðbusahætti.
Víkverji lýsir slíku í Morgunblaðinu fyrir nokkru, að hann hafi ávallt lent í hinum mestu hremmingum þá er hann hefur orðið að eiga viðskipti við þá stofnun. Þar segir: "Enginn vilji virðist vera til að sýna liðlegheit og greiða úr vanda fólks og viðmót starfsmanna í besta falli önugt og í versta falli hreinlega dónalegt."
Í júní sl. varð undirrituðum á í messunni, pantaði bók frá bókaklúbbi amerískum og lét greiðslu fylgja pöntun.
Nú leið og beið og í fyllingu tímans kom tilkynning frá pósthúsinu að mín biði þar sending, bókin að vestan. Fer í einum grænum að sækja "gripinn" en þá kom babb í bátinn, vantaði fylgibréf um upphæð tolls. Nú fara að berast ítrekanir um að sendingin verði sótt, en fékkst ekki afhent vegna vafa um upphæð tolls. Þá gerði undirritaður tilboð: greiða þúsundkall á stundinni, afgang í sjóð okkar allra af einhver yrði. Þessu boði var neitað "fyrir sunnan". Skilríki sögðu tollheimtumenn!
Fór skrifara pistils að leiðast þóf þetta og lét kyrrt liggja. Taldi að úr því sem komið væri færi best á því að bókin yrði innlyksa í bókasafni sem Íslandspóstur hf. kynni að stofna til.
Loks kom þar að stöðvarstjóri Pósts og síma fékk pata af umkomuleysi hinnar útlendu bókar í geymslu stofnunarinnar. Hann brá við skjótt og leysti "vandann" á stundinni, þökk sé honum og starfsfólki.
Hefði bókin mátt mæla hefði hún ugglaust fagnað því að komast í hendur eiganda síns eftir að hafa dvalið á annan mánuð í einskonar öryggisvörslu.
Tollinn greiddi pistilskrifari með glöðu geði, 810 krónur, en sjóðurinn okkar allra missti af 199 kr.!
HARALDUR GUÐNASON
Bessastíg 12, Vestmannaeyjum.