CHRIS Dudley, körfuknattleiksmaður í bandarísku NBA-deildinni, sem verið hefur hjá Portland, gat loks gengið frá samningi við New York Knicks í gær, eftir að þriggja manna dómstóll samþykkti þriggja félaga viðskipti; áðurnefndra tveggja og Toronto Raptors.
CHRIS Dudley, körfuknattleiksmaður í bandarísku NBA-deildinni, sem verið hefur hjá Portland,
gat loks gengið frá samningi við New York Knicks í gær, eftir að þriggja manna dómstóll samþykkti þriggja félaga viðskipti; áðurnefndra tveggja og Toronto Raptors. Dudley, sem er miðherji, þykir einn besti varnarmaður deildarinnar.JOHN Wallace, sem þykir mjög efnilegur framherji, fór frá Knicks til Toronto Raptors, sem aftur á móti lét Portland í té valrétt í fyrstu umferð háskólavalsins 1998.
GREG Anthony, er kominn til Seattle SuperSonics. Þess knái skotbakvörður gerði eins árs samning við félagið. Anhtony, sem leikið hefur í sex ár í NBA-deildinni með New York Knicks og Vancouver Grizzlies, er 1,88 m á hæð. Hann verður varamaður Garys Paytons, en auk hans hafa þeir Dale Ellis og Jeromy Kersey komið til Seattle í sumar.
LUDMILA Engquist, heims- og ólympíumeistari í 100 m grindahlaupi kvenna, keppir ekkert innanhúss í vetur vegna meiðsla í baki. Engquist, sem fædd er í Rússlandi en keppir nú fyrir Svíþjóð, meiddist sl. vor en varð engu að síður heimsmeistari í Aþenu. Hún hyggst hins vegar hvíla sig í vetur en ætlar sér stóra hluti næsta sumar.
ALVEIRO Usuriaga, fyrrverandi landsliðsmaður Kólumbíu í knattspyrnu, hefur verið settur í tveggja ára keppnisbann eftir að í ljós kom að hann hefur neytt kókaíns. Usuriaga leikur nú með argentínska félaginu Independiente. Þetta er strangasta keppnisbann í sögu argentínsku deildarinnar.
CYRILLE Pouget, framherji hjá franska knattspyrnufélaginu Le Havre, féll nýlega á lyfjaprófi. Niðurstaða þess leiddi í ljós að Pouget hafði notað anabólíska stera, að sögn talsmanns félagsins. Honum er hins vegar leyfilegt að spila enn um sinn; þar til aganefnd franska knattspyrnusambandsins ræðir mál leikmanns, eftir að síðara þvagsýnið úr honum verður rannsakað.
SION og Spartak frá Moskvu verða að mætast aftur í UEFA- keppninni í knattspyrnu. Í ljós kom að mörkin voru talsvert of lág í fyrri leiknum í Moskvu. Forráðamenn svissneska félagsins fóru fram á að því yrði úrskurðaður sigur í leiknum og það færi því áfram í keppnini, en niðurstaða Knattspyrnusambands Evrópu eru að þau mætist aftur.
BOBBY Charlton, einn frægasti knattspyrnumaður í sögu Englands, verður sextugur í dag. Hann heldur uppá daginn með því að fylgjast með leik Ítalíu og Englands í undankeppni heimsmeistaramótsins í Rómaborg.
CHARLTON hugðist taka fram knattspyrnuskóna í dag og leika með áhugamannaliðinu Moss Amateurs í Manchester, gegn Tintwistle Villa, en þátttöku hans í leik með Moss-mönnum, hefur verið frestað þar til í nóvember. Charlton hefur gert 49 mörk í landsleik fyrir England fleiri en nokkur annar leikmaður. Hann lék á sínum tíma 106 landsleiki og var einn heimsmeistaranna 1966.
HOLLENDINGAR sem eru sigurstranglegastir í 7. riðli mæta Tyrkjum, í dag. Þeir verða án miðvallarleikmannsins Boudewijn Zenden sem er meiddur og eins er óvíst hvort Marc Overmars geti leikið.
ANDY Townsend , leikmaður Middlesbrough og fyrirliði Íra, getur ekki leikið með landsliðinu á móti Rúmenum í dag vegna hnémeiðsla. Líklegt er talið að Tony Cascarino taki við fyrirliðabandinu í hans stað.
MICKY Adams , sem var sagt upp hjá Fulham á dögunum eftir að Kevin Keegan var ráðinn, tekur við sem framkvæmdastjóri Swansea af Dananum Jan Mölby, sem var rekinn á þriðjudag.