Eins eru skýin sem áður, í elli þú mæltir, þegar bölheimur brigðull baki að þér sneri. Andi sveif þinn hið efra, það efra honum móti hýrlega hló og benti til heimkynna réttra.


BJARNI THORARENSEN

SVEINN PÁLSSON

­ brot

Eins eru skýin sem áður,

í elli þú mæltir,

þegar bölheimur brigðull

baki að þér sneri.

Andi sveif þinn hið efra,

það efra honum móti

hýrlega hló og benti

til heimkynna réttra.



Eins voru blómin sem áður

fyr augum þér, frændi,

þá hneit þér hjarta ið næsta

hjörinn forlaga;

brotnuðu boðar mótlætis

á baki þér sjálfir,

en seggir sáu þig standa

hinn sama og áður.



Frjáls þinn og auðugur andi

sér átti og nýtti

álfaslot hverjum í hamri

og hægindi í skýjum,

búgarð hvers í blómsturs

bikari miðjum

og hvern til viðtals sér valdi

af vitringum liðnum.



Örlaga örvar því náðu

þig aldrei að fella,

að undanfæri þinn andi

ætíð sér hafði.

Var hann að leikum með liðnum

eða ljósálfum muna,

harmanornir þá heima

hann hugðu að finna.

Bjarni Thorarensen, 1786­1841, var skáld og embættismaður, dómari í Landsyfirrétti og amtmaður norðan og austan með aðsetur á Möðruvöllum. Hann þótti frekar kuldalegt yfirvald, en var samt einn helzti fulltrúi rómantísku stefnunnar í bókmenntum og náði oft sérstöku flugi í erfiljóðum sínum, hér um brautryðjandann Svein Pálsson náttúrufræðing.