"BÓNUS er með lægsta vöruverðið á landinu miðað við þá könnun sem við gerðum í 79 matvöruverslunum víðsvegar um landið," segir Birgir Guðmundsson verkefnisstjóri samstarfsverkefnis ASÍ, BSRB og Neytendasamtakanna en á þeirra vegum var nýlega gerð viðamikil könnun í matvöruverslunum landsins. "Fast á hæla Bónus kemur KEA Nettó.
Samstarfsverkefni ASÍ, BSRB og NS um verðlagsaðhald og verðkannanir

Bónus með lægsta

vöruverðið á landinu

"BÓNUS er með lægsta vöruverðið á landinu miðað við þá könnun sem við gerðum í 79 matvöruverslunum víðsvegar um landið," segir Birgir Guðmundsson verkefnisstjóri samstarfsverkefnis ASÍ, BSRB og Neytendasamtakanna en á þeirra vegum var nýlega gerð viðamikil könnun í matvöruverslunum landsins. "Fast á hæla Bónus kemur KEA Nettó. Athyglisvert er að litlar verslanir á landsbyggðinni koma vel út miðað við sambærilegar verslanir í Reykjavík. Hagkaup og Skagfirðingabúð hafa hækkað verðið frá síðustu könnun en KÁ, Kjarval og 11-búðirnar hafa lækkað verðið."

Verðkönnunin var gerð þriðjudaginn 30. september síðastliðinn. Verð á 127 vörum var kannað í 79 matvöruverslunum í 37 byggðarlögum.

Birgir Guðmundsson starfsmaður samstarfsverkefnisins segir athyglisverðar hræringar hafa orðið síðan í síðustu könnun NS og verkalýðsfélaganna. Hefur dregið saman með Bónus og KEA Nettó en verðmunur milli þeirra var 4% í lok september en 6% í könnuninni í maí.

Tekið skal fram að í könnuninni er um hlutfallslegt verð að ræða þannig að ekki er verið að segja að verðlag í einni verslun hafi hækkað heldur getur verðlag hjá öðrum hafa lækkað sem skýrir aðra niðurröðun. Ein verslun neitaði að vera með og var það Straumnes í Reykjavík.

Að þessu sinni var verslunum skipt í þrjá flokka. Fyrsti flokkurinn er lágvöruverðsverslanir sem eru Bónus og KEA Nettó. Annar flokkurinn er stórmarkaðir, keðjuverslanir og þær sem eiga í innkaupasamstarfi. Sá flokkur er einnig sá stærsti en í þann flokk falla t.d. öll kaupfélögin og þær verslanir sem eru í Þinni verslun og einnig þær sem eru í innkaupasamstarfi við Baug eða Búr. Þriðji flokkurinn er svo kaupmaðurinn á horninu. Fundið var út meðalverðlag á landsvísu og það sett sem 100 og er frávik frá því sýnt á súluritum. Þannig eru allir flokkanir mældir út frá sama grunni sem er landsmeðaltal og sést þar með einnig munur milli verslana í ólíkum flokkum.

Munur minnkar milli Bónus og KEA Nettó

Í flokki lágvöruverslana er athyglisvert að dregið hefur saman með Bónusi og KEA Nettó en í maí mældist 6% verðmunur milli þeirra en nú í lok september er munurinn 4%. Bónus er eftir sem áður ódýrasta verslun landsins.

Í flokki stórmarkaða, keðjuverslana og þeirra sem eiga í innkaupasamstarfi virðist vera töluverð uppstokkun. "Það er erfitt að taka töluleg dæmi um verðbreytingu hjá einstaka verslunum frá síðustu könnun þar sem breytt hefur verið um reiknigrunn. Ekki er heldur hægt að yfirfæra þessa könnun yfir á mælikvarða síðustu könnunar þar sem fyrri reiknigrunnur var Bónus en svo gæti verið að verðlag í Bónusi hafi hækkað miðað við aðra frá síðustu könnun og því fengist ekki rétt mynd." Birgir segir að ekki sé heldur hægt að reikna síðustu könnun yfir á núverandi mælikvarða sem er landsmeðaltal og bera saman því í þessari könnun eru fleiri litlar verslanir heldur en í síðustu könnun og landsmeðaltal hærra en áður.

Verðlag lækkar hjá KÁ, Kjarval og 11-verslunum

"Það er augljós uppstokkun í þessum flokki og það er áberandi að verðlag hjá Kjarval Selfossi, KÁ og 11-11-verslunum hefur lækkað miðað aðra meðan verðlag hjá Hagkaup og Skagfirðingabúð hefur hækkað í samanburði við aðra. Tekið skal fram að hér er um hlutfallslegt verð að ræða þannig að ekki er verið að segja að verð hjá einni verslun hafi hækkað heldur getur breytt niðurröðun einnig orsakast af lægra verði annars staðar."

Litlar búðir á landsbyggðinni með lægra verð

Fjórar verslanir í Reykjavík eru í flokki kaupmanna á horninu. Tvær þeirra mælast með hæsta verðlag í þeim flokki. "Þannig virðast litlar verslanir á landsbyggðinni standa sig vel miðað við sambærilegar verslanir í Reykjavík," segir Birgir.