KRISTBJÖRG H. STEINGRÍMSDÓTTIR
MANNHEIMUR
Mannheimur líkist óhirtum grasagarði,
sem geymir jurtir af mörgu ólíku tagi,
í upphafi gjörður með skikkan og skipulagi,
en skipulagið riðlaðist fyrr en varði.
Er jurtirnar hófu að blanda við grannana geði
gjörðust þær valdníðingar í annarra beði.
Það tíðkast að lítilsvirða hagsmuni hinna
heimta frjórri jarðveg og meira rými,
berjast sem ljón fyrir réttindum róta sinna
reiða hnefa þetta er minn staður og tími.
Nytjajurtirnar fá ekki vaxið í friði
fyrir uppvöðsluseggjum og róstuliði.
Innan um gróðurinn eitraðir þistlar skríða,
undir sverðinum ræturnar greinast og smjúga,
frá hinum í leyni þær safa og næringu sjúga
með svikulli lævísi tækifæranna bíða.
En illgresið ryðst, vill ríkja og yfirgnæfa
með ruddaskap fantsins, yfirskyggja og kæfa.
Hvílík óreiða, Guð minn, í garði þínum!
Grimmir og siðlausir níðast á meðbræðrum sínum.
Þú ættir að finna þér góðan garðyrkjumann.
Starfsmann sem rífur illgesið upp með rótum
eiturþistlana slítur og treður und fótum.
"Það er hægara í orði en framkvæmd að finna hann.
Eg skapaði jörðina, gjörði að gróðurvin
og gaf henni sonu, en þetta varð nöðrukyn,
svikult og grimmt á sífelldri ófriðargöngu.
Sáttaher minn er uppgefinn fyrir löngu.
Ég kenndi þeim mannúð og kærleik til allra hinna
kunnáttu slíka, er naumast lengur að finna.
Göfgi og sannleiksást sem ég í brjóst þeim lagði
í sora heimskunnar týndist á augabragði.
Líf þeirra hvorki sæmd né siðmenning nærir
sérhvert barn þeirra hatur og ótta lærir.
Þeir hika ei við að myrða til brauðs sinn bróður
og blóði hans ata jörðina, sína móður.
Væri þeim göfugur siðbótarmaður sendur
þeir seldu hann varnarlausan í níðingahendur.
Meðan ég stöðugt leita þeim björgunarleiða
ljúga þeir, stela, svíkja, kvelja og deyða.
Mér ægir að líta þann skaða er sköpun mín vann.
Þeir fundu upp hernaðarmátt er gæti þeim grandað.
Ef grufl þeirra vekur öfl, sem þeir fá ekki bandað
með tækninnar djöfulskap tilveru sinni þeir eyða.
Brunnin jarðstjarnan verður þá minnisvarðinn
af vonsku sinni og græðgi hljóta þeir arðinn.
Ég sendi minn einkason til að rækta garðinn,
en synir jarðarinnar krossfestu hann."
Höfundurinn býr á Hrauni í Aðaldal.