Silki strauj-
að frosið
KONA sem um skeið vann á silkibúi í Tælandi ráðlagði lesendum
bandarísks heimilisþáttar á alnetinu hvernig þrífa á fatnað úr silki. Hún mælti eindregið með ullarsápu og að sjálfsögðu handþvotti. Ef erfitt er að nálgast ullarsápu benti hún á milt barnasjampó. Á meðan flíkin er rök á síðan að rúlla hana upp þéttingsfast, setja í plastpoka og beint í frysti. Að nokkrum tíma liðnum er pokinn tekinn úr frysti og flíkin straujuð. Þessi aðferð á að leiða fram glansinn í silkinu.
Ekki þvottaefni með ensímum á ull
Við þvott á ullarflíkum á ekki að nota þvottaefni með ensímum í. Ástæðan er sú að ensímin leysa upp náttúrulegu ullarfituna og þá skemmist flíkin. Yfirleitt er þess getið í leiðbeiningum með þvottaefnum hvort þau innihaldi ensím.
Salernisskálar þrifnar með ediki
Við þrif á salernisskálum er hægt að nota "hvítt" edik. Í áðurnefndum heimilisþætti á alnetinu var lesendum bent á að bleyta svamp með ediki og nudda salernisskálina. Ef blettirnir neðst í skálinni eru erfiðir viðureignar er hægt að loka fyrir vatnið svo skálin fyllist ekki eftir að búið er að sturta niður. Hellið síðan ediki í hana og látið bíða yfir nótt. Endurtakið ef þarf.
Kaffikorgur á hendurnar
Lykti hendur eftir matargerð má prófa ódýrt ráð og nudda hendurnar úr kaffikorgi. Skolið þær síðan og passið að hafa korginn ekki það lengi á höndunum að þær ilmi af kaffikorgi á eftir.