Umdeilt hvort hægt sé
að úthluta kvóta á skip
Samkvæmt bókstaf laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands sem
sett voru milli jóla og nýárs í vetur verður hægt að úthluta aflaheimildum á einstök skip vegna veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á næstu vertíð. Það er þó alls ekki óumdeilt. Hjálmar Jónsson ræddi við hagsmunaaðila og fulltrúa stjórnar og stjórnarandstöðu í sjávarútvegsnefnd Alþingis um viðhorfin í þessum efnum.
MIKLAR líkur eru til að það stefni í átök í vetur um fyrirkomulag veiða á hlutdeild Ís lendinga í norsk-íslenska síldarstofninum næsta sumar. Sjónarmiðin eru mjög mismunandi í þeim efnum. Sumir telja að úthluta eigi aflakvóta á einstök skip, aðrir að ef það sé gert þá eigi kvótinn ekki að verða framseljanlegur. Þá eru einnig þeir sem telja að fyrirkomulag veiðanna eigi að vera óbreytt, þannig að hver og einn sem leyfi hefur til veiðanna geti aflað að vild að því hámarki sem heildarkvóti Íslendinga leyfir. Loks eru þeir sem telja að veiðar úr norsk- íslenska síldveiðistofninum skapi jarðveg til þess að fitja upp á nýjungum í fiskveiðistjórnuninni.
Hlutdeild Íslendinga í norsk- íslenska síldveiðistofninum var 233 þúsund tonn í ár og tókst okkur að veiða um 220 þúsund tonn. Veiðum er lokið og tókst ekki að ná öllum kvótanum í ár frekar en í fyrra. Norsk-íslenska síldin gerði vart við sig á nýjan leik eftir rúmlega aldarfjórðungshlé árið 1994 og veiddust þá rúmar 20 þúsund lestir. Veiðarnar jukust síðan í 175 þúsund lestir árið eftir og í 165 þúsund lestir í fyrra. Mest allur aflinn hefur farið í bræðslu til þessa. Ekki er ljóst hvaða veiðiheimildir koma í okkar hlut á næsta ári og ósamið um það milli þeirra ríkja sem veitt hafa úr stofninum. Um mikil verðmæti er að ræða, þó menn séu ekki á eitt sáttir um hvernig beri að meta þau. Til samanburðar hefur komið fram að einn síldarkvóti af suðurlandssíld er metinn á 80-100 milljónir króna í skiptum á veiðiheimildum, en slíkur kvóti nemur 1.109 tonnum á nýbyrjuðu fiskveiðiári.
Alfarið á móti auðlindaskatti
Stefán Guðmundsson, alþingismaður Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra, sagði að á síðasta ári hefði niðurstaðan orðið sú að sjá til með fyrirkomulag á veiðunum. Málið yrði skoðað aftur nú og hann teldi að það yrði eitt af stóru málunum í vetur hvernig farið yrði með skiptingu á þeim aflahlutdeildum sem kæmu til vegna síldarinnar. "Ég held að það sé mjög mikilvægt að vanda sig í því, en sú umræða og ákvarðanataka er eftir hvernig verður farið með hann varanlega," sagði Stefán.
Aðspurður hvort hann teldi að úthluta ætti þessum aflaheimildum án þess að eitthvert gjald kæmi fyrir, sagðist Stefán vera alfarið á móti auðlindaskatti í sjávarútvegi. "Ég er opinn fyrir öllum umræðum um það hvernig við skiptum þeim veiðirétti sem kemur þarna til og ég held að það sé mjög vandasamt verk að gera það svo allir verði sáttir," sagði Stefán ennfremur.
Hann sagði að þannig hefði verið gengið frá málum í vor að sú veiði sem nú væri myndaði ekki neinn rétt til framtíðar. Hann liti þannig á að menn hefðu óbundnar hendur til að ganga til þessa verks.
Síldina á að kvótasetja
Kristján Ragnarsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, sagði að það væri ekkert álitamál að það ætti að kvótasetja norsk-íslensku síldina fyrir næstu vertíð. Allir hafi upplifað hversu vitlaust núgildandi veiðikerfi sé með óheftum veiðum með ákvörðun heildarkvóta. Slík fiskveiðistjórnun sé mjög kostnaðarsöm og vilji menn vera raunsæir varðandi það hvernig eigi að nýta auðlindina þá sé það best gert með því að sérhver fái að vita fyrirfram hversu mikið hann megi veiða. Þá sé hægt að haga veiðunum þannig að verðmætið verði sem mest og tilkostnaðurinn sem minnstur. Engu slíku sé til að dreifa í núgildandi kerfi.
"Ef menn fá leyfi til að veiða tiltekinn veiðistofn hafa mönnum ekki verið gefnir neinir milljarðar. Menn fá að sækja og kostnaðurinn við að sækja þetta er því miður nærri því eins mikill og tekjurnar, þótt það sé breytilegt frá einum fiskveiðistofni til annars og einu veiðarfæri til annars á tilteknum tímabilum. Kostir þess að úthluta þessu miðað við veiðireynslu undanfarinnar þriggja ára eru ótvíræðir í mínum huga," sagði Kristján.
Hann sagðist ekki sjá annað en að kvótum yrði úthlutað á skip á næstu vertíð því lagafyrirmælin frá Alþingi væru alveg ótvíræð í þeim efnum. "Þegar lögin um úthafsveiðarnar voru sett þá var ráð fyrir þessu gert. Það var bara beðið eftir einu ári og nú er það komið. Það getur ekki komið neitt til álita að því verði slegið frekar á frest," sagði hann ennfremur.
Kristján benti á að fordæmin væru fyrir hendi því búið væri að kvótasetja úthafskarfann og einnig væri búið að úthluta rækjurétti á Flæmingjagrunni á grundvelli þriggja ára veiðireynslu. Þá væri í lögunum ákvæði um að ávinningi norsk-íslensku síldarinnar væri dreift yfir allan flotann með því að skila þyrfti inn 15% í verðmæti annarra heimilda fyrir þær sem úthlutað yrði. Þannig dreifðist ávinningurinn til allrar útgerðarinnar. Hins vegar væru margir útgerðarmenn ósáttir við þetta ákvæði. Allt tal um veiðileyfagjald ætti ekkert frekar við í sambandi við norsk-íslensku síldina en í sambandi við veiðar á öðrum tegundum.
Kristján sagði aðspurður að mjög erfitt væri að meta verðmæti veiðiheimilda. Langmest væri um skipti á veiðiheimildum milli tegunda að ræða. Einn sæi sér hag í því að veiða frekar síld en þorsk og skipti því á veiðiheimildum þessara tegunda. Þorskur hefði eitthvert verðgildi sem myndaðist í jaðarviðskiptum með örlitlum hluta veiðiheimildanna. Það verð segði ekkert til um heildarverðmæti heimildanna sem menn hefðu haft gaman af að reikna upp í himinhæðir. Þetta væri bara leikur að tölum og segði ekkert til um þau verðmæti sem um væri að ræða. "Allt kerfið er að leitast við að búa til meiri verðmæti og kosta minnu til. Það er vegvísirinn í þessu kerfi, markaðsöflin að verki eins og þau geta best virkað," sagði Kristján að lokum.
Kvótinn verði óframseljanlegur
Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, sagði að Sjómannasambandið væri ekkert á móti því að hlutdeild okkar í norsk-íslenska síldveiðistofninum yrði kvótasett. Hins vegar væri það ófrávíkjanlegt skilyrði að kvótinn yrði óframseljanlegur.
Aðspurður sagðist hann telja það skynsamlegri fiskveiðistjórnun að úthluta kvóta á hvert skip heldur en að hafa einn heildarkvóta sem allir geti gengið í. Almennt væri hann fylgjandi fiskveiðistjórnun, en hins vegar væri það algjört skilyrði að kvótinn væri óframseljanlegur og það sama gilti um veiðar á Reykjaneshrygg og Flæmingjagrunni. Hann teldi að það sama ætti að gilda um norsk- íslensku síldina og gilti almennt í fiskveiðistjórnunarlögunum nema að það ætti ekki að vera framseljanlegur kvóti. Skipta mætti á jöfnum veiðiheimildum en alls ekki ætti að vera um framsal að ræða. "Menn eiga ekki að hagnast á leigubraski á auðlind sem þeir hafa fengið úthlutað án endurgjalds," sagði Sævar. Hann sagðist hins vegar ekki vilja auðlindagjald, hvorki á þessar veiðar né aðrar.
Ekki söluvara
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Farmanna- og fiskimannasambandsins, sagði að ekki hefði verið rætt innan hans samtaka hvernig standa ætti að veiðifyrirkomulagi á norsk-íslensku síldinni á næstu vertíð. Í vor er leið hefðu hins vegar menn verið þeirrar skoðunar að kerfið ætti að fela í sér hvatningu til að ná síldinni, því það væri ekki gott fyrir okkur að skilja eftir hluta af veiðiheimildunum ár eftir ár. Hins vegar hefði ekki verið fjallað formlega um það hvernig ætti að standa að úthlutun á síldinni til framtíðar, en það yrði örugglega rætt á þingi samtakanna í haust.
Guðjón sagði að samtökin hefðu lagt mikið upp úr því að skapað yrði kerfi þar sem kvótarnir væru ekki söluvara. Ef kvótum yrði úthlutað, þá væri það skilyrði að kvótinn væri ekki framseljanlegur. Hins vegar mætti kvótinn vera skiptanlegur þannig að menn gætu látið frá sér síld og fengið einhverja aðra tegund í staðinn. Þarna væri um nýtingarrétt að ræða. Það væri upprunalegt markmið kvótakerfisins. "Þetta er veiðiréttur sem útgerðinni er úthlutað. Það á náttúrlega að vera eitthvert atvinnuöryggi í því þegar menn ráða sig á skip. Ekki sé um að ræða pappírsfisk í einhverju hlutabréfafyrirtæki sem er síðan seldur út og suður. Við erum algjörlega andvígir því að slíku kerfi verði komið á á einum stofninum í viðbót," sagði Guðjón.
Aðspurður sagðist hann ekki hafa séð neina framsetningu á veiðileyfagjaldi sem yrði ekki hrein viðbót við það brask sem þegar væri í gangi. Það væri bull þegar menn töluðu um að setja veiðileyfagjald inn í núverandi kerfi. Það yrði að stokka kerfið upp og byggja það öðru vísi ef það ætti að tengjast einhverju slíku. "Út af fyrir sig er ég ekkert að segja að það megi ekki taka einhvers konar gjald, en það má ekki hugsa það inn í það braskkerfi sem nú á sér stað," sagði Guðjón.
Mjög sérstakar aðstæður
Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður Alþýðubandalagsins í Norðurlandskjördæmi eystra, sagði að menn hefðu haft uppi stór orð um vitleysuna og kapphlaupið sem frjálsar veiðar hefðu í för með sér. Það væri út af fyrir sig alveg rétt, og menn þekktu það frá gamalli tíð, að það væri ekki hagkvæmasta aðferðin við að nýta veiðistofninn að hafa slíkt kapphlaup um aflann.
"En það er erfitt að sjá einhverja aðra skárri leið í sjálfu sér heldur en að láta veiðar vera frjálsar innan einhverra marka á meðan það er að myndast aflareynsla. Lögin gera ráð fyrir því sem aðalreglu að grunnur til úthlutunar sé aflareynsla. Nú er að vísu um mjög sérstakar aðstæður að ræða í norsk-íslensku síldinni, þar sem hægt er að líkja því við að nýr stofn sé að uppgötvast," sagði Steingrímur.
Hann sagði að þarna væru að skapast miklir viðbótarveiðimöguleikar á skömmum tíma fyrir flotann og hann vildi alls ekkert útiloka það að við slíkar aðstæður færu menn aðrar leiðir heldur en við úthlutun á hefðbundnum veiðiréttindum innan lögsögunnar gagnvart stofnum þar sem langtíma veiðireynsla væri fyrir hendi.
Hann sagðist telja að stýra ætti veiðunum með aflamarki. Almennt væru menn sammála um að í veiðum á uppsjávarfiski hentaði það fyrirkomulag betur.
Steingrímur sagði að allir útreikningar á verðmæti veiðiheimildanna væru að því leyti hæpnir að þeir sýndu jaðarkostnaðarverð á einhverju afmörkuðu magni. Þessi jaðarverð sem sæjust í einstökum viðskiptum endurspegluðu ekki raunverulega greiðslugetu sjávarútvegsins fyrir allar þessar veiðiheimildir. Raunhæft langtímaverð væri ekkert annað en það verð sem afraksturinn stæði undir. Það þyrfti enginn að segja honum það að nýtingin á einum íslenskum síldarkvóta leyfði að hann væri keyptur á 80 milljónir. Það sem væri að gerast væri að menn væru að koma sér fyrir í greininni og væru tilbúnir til þess að borga bullandi yfirverð fyrir kvótann til þess að vera með.
Kvótinn verði seldur
Sighvatur Björgvinsson, alþingismaður Alþýðuflokksins í Vestfjarðakjördæmi, sagðist hafa flutt frumvarp á síðasta þingi um það að norsk-íslenski síldveiðikvótinn yrði seldur frá ári til árs á uppboði og ráðherra yrði veitt heimild til þessa. Í kjölfar ummæla Einars Odds Kristjánssonar á þingi á fimmtudag við utandagskrárumræðu um veiðileyfagjald hefði hann farið rakleiðis til hans með frumvarpið og óskað eftir stuðningi hans við endurflutning. Hann myndi flytja frumvarpið aftur hvort sem Einar yrði við þessum tilmælum eða ekki.
Sighvatur sagði að þegar málið hefði verið rætt í sjávarútvegsnefnd í fyrra hefðu menn verið sammála um að samkvæmt fiskveiðistjórnunarlögunum væri ekki hægt að kvótasetja á einstakt skip fyrr en eftir þriggja til sex ára samfellda aflareynslu. Nú væri bara liðið eitt ár, því tekið hefði verið fram að fyrri tvö árin myndu ekki leggja grundvöll að aflareynslu. "Ég tel að það sé ólöglegt að kvótasetja á einstakt skip núna. Það var sérstaklega tekið fram um fyrri árin að þau myndu ekki skapa grundvöll fyrir úthlutun," sagði Sighvatur.
Hann sagði að hver einasti sjávarútvegsnefndarmaður í fyrra hefði verið sammála um það að ekki væri hægt að úthluta kvóta á skip.
Sighvatur sagði að aflaheimildir í norsk-íslenska síldveiðistofninum sköpuðust fyrir tilverknað almannavaldsins með alþjóðasamningum þar um. Aðstæðurnar væru að þessu leytinu til gjörólíkar frá hefðbundnum veiðum. Það væri fráleitt ef þetta sama almannavald ætlaði að gefa þau verðmæti sem sköpuðust fyrir tilverknað þess fáum einstaklingum.
Rangtúlkun
Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Vestfjarðakjördæmi, sagði að það væri rangtúlkun ef því væri haldið fram að hægt væri að kvótasetja norsk-íslensku síldina á næstu vertíð. Það hafi verið ítarlega rætt í sjávarútvegsnefnd að það væri ekki hægt að útdeila kvótum nema á grundvelli frjálsrar sóknar og ekki væri liðið nema eitt ár frá því sú afstaða hefði verið tekin. Það væri fráleitt að úthluta kvótum á skip nú. Næstu 2-5 ár yrði um frjálsar veiðar að ræða að hans mati. Sjávarútvegsnefnd hefði ekki verið tilbúin að kvótasetja nokkra tegund nema á grundvelli reynslu og lengra þyrfti að líða.
Einar Oddur sagði að aðrar reglur hefðu gilt um veiðarnar á árunum 1995 og 1996 og hann myndi ekki samþykkja fyrir sitt leyti að veiðar á þeim árum yrðu lagðar til grundvallar við kvótaúthlutun.
Hann sagði að við umræður um veiðileyfagjald á Alþingi á fimmtudag hefði hann sagt að ef menn tryðu því að auðlindaskattur gæti verið góður í hagfræðilegu tilliti þá væri kannski rétt að prófa hann í veiðum á norsk-íslenska síldarstofninum. Við værum ef til vill að ná árangri í auknum fiskveiðiarði hvað varðaði veiðar uppsjávarfiska, en um það væri ekki að ræða í þorskveiðum. Með tilliti til þess kæmi ef til vill til greina að gera tilraun með það hvort auðlindagjaldskerfi virkaði í tilfelli norsk-íslenska síldarstofnsins. Hann sagðist jafnframt hafa tekið það fram að hann hefði enga fullvissu að við værum að gera rétt með þessu, en það væri miklu nær að gera tilraunina, þar sem við sæjum að það hefði orðið einhver árangur af fiskveiðistjórnuninni, heldur en standa í þessu eilífa karpi.
Hann bætti því við að fiskveiðistjórnunarkerfið hefði ekki náð neinum árangri hvað varðar þorskveiðar og jafnvel mætti halda því fram að okkur hefði miðað aftur á bak. Hins vegar þættist hann sjá þess merki að í uppsjávarveiðunum væri þetta kerfi að ná árangri og "auðlindagjald byggist á þeirri hagfræðikenningu að sé fiskveiðunum stjórnað á réttan hátt þá verði til fiskveiðiarður umfram það sem ella hefði orðið til og þess vegna sé eitthvað til skiptanna. Sem meginregla held ég þó að það komi best út fyrir samfélagið að þessi arður verði eftir hjá viðkomandi útgerðarfélögum. Þannig treystum við efnahagslífið best. Það er alls ekki verið að taka af útgerðinni heldur verður eitthvað til skiptanna og það er grundvöllur fyrir tiltölulega hlutlausa skattlagningu. Það er það sem þetta snýst um. Þetta snýst um hagkvæmni en ekki einhverjar upphrópanir eins og Morgunblaðið er með um eitthvert eilífðarréttlæti," sagði Einar Oddur ennfremur.
Skapast vegna almannavalds
Líkt því að nýr stofn sé að uppgötvast