Hét hún ekki Ásta systir hennar Maríu sú sem gekk um beina sá um að engan skorti og allir hefðu nægtir glaðleg í fasi hreinskiptin kona setti jafnvel ofan í við meistarann er hann gerðist of fullyrðingasamur Víst hét hún Ásta og þær María voru systur áttu þær ekki bróður Lárus sem dó


JÓN BJARMAN

SYSTIR MARÍU

Hét hún ekki Ásta

systir hennar Maríu

sú sem gekk um beina

sá um að engan skorti

og allir hefðu nægtir



glaðleg í fasi

hreinskiptin kona

setti jafnvel ofan í við meistarann

er hann gerðist of fullyrðingasamur



Víst hét hún Ásta

og þær María voru systur

áttu þær ekki bróður

Lárus

sem dó ungur

ótímabært

sárt syrgður af vinum og grönnum

sögur fóru af útför hans



Þau voru að austan

systkinin

hárið í dekkra lagi

litarhaftið skjannahvítt



María og Ásta

eða var það Ásta og María

og bróðirinn Lárus



Það hefir sérstætt yfirbragð

fólkið að austan

maður gleymir því varla

þó er langt um liðið

ég hef ekki séð þær né heyrt



Ásta hét hún

systir Maríu

Í minningu Ástu B. Magnúsdóttur, þjónustu á Hressingarskálanum í mörg ár. Höfundur er sjúkrahúsprestur þjóðkirkjunnar og fyrrum fastagestur á Skálanum.